144. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2014.

störf þingsins.

[15:27]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég á stundum svolítið erfitt með að túlka yfirlýsingar frá innanríkisráðuneytinu. Þegar þar er talað um „engin sambærileg gögn“ gæti það allt eins þýtt „næstum því nákvæmlega eins gögn“. Þegar menn segja „engin óeðlileg afskipti af rannsókn“ gæti það allt eins þýtt „hótun um rannsókn á rannsókn“. Þegar hv. innanríkisráðuneyti segir mér að það sé engin stefnubreyting þá veit ég hreinlega ekki hvernig ég á að túlka það.

Það gleður mig að vísu að þessar vélbyssur hafi ekki verið keyptar fyrir þann hálfa milljarð sem hér var ráðstafað til að bæta þjálfun og búnað lögreglunnar. Það gleður mig mjög. En þegar menn tala um stefnubreytingu verða þeir að hafa í huga að í vopnalögum er lögreglan undanskilin og sett eingöngu hvað þetta varðar undir reglur innanríkisráðherra. Það þýðir að lögreglunni er sjálfri treyst til að taka mikið af þessum ákvörðunum. Ég velti því fyrir mér hversu hræðileg vopn hún þyrfti að taka upp til að um væri að ræða raunverulega stefnubreytingu samkvæmt þeirri túlkun. Það er stigsbreyting og hún skiptir máli.

Það skiptir máli hvernig vopn lögreglan er með, hversu mikið af vopnum hún er með, hvar þau eru og til hvers þau eru notuð og hjá hvernig lögreglumönnum þau eru. Þá á ég við hvort um sé að ræða sérsveit, víkingasveit eða almenna lögreglumenn.

Að því er virðist, og það kom fram á fundi í hv. allsherjar- og menntamálanefnd áðan, hafa engar ákvarðanir enn verið teknar um það ofan frá hvað gera eigi við þessar byssur. Lögreglustjórar eiga að ráða því sjálfir. — Við eigum að ræða það hér. Það hefur ekki verið þannig. Samkvæmt mínum heimildum, sem ég las frá lögreglunni, eru 60 MP5 byssur í eigu lögreglunnar, þar af 58 hjá sérsveitinni, tvær á Reykjanesi. Það kemur mér reyndar á óvart, ef út í það er farið, en það eru þó tvær en ekki 150. — 150 stykki, virðulegi forseti. Þetta skiptir máli.

Þetta mál kemur upp þegar við erum þegar að díla við ýmsar spurningar um lögregluna sem við eigum löngu að vera búin að svara, svo sem um leitarheimildir. Við vitum að lögreglan má alls ekki leita á fólki nema með dómsúrskurði eða með samþykki. En ef þú neitar leit má auðvitað handtaka þig. Svona vandamál.

Valdheimildir lögreglunnar eru leyndarmál. Sumir segja að þær séu ekki leyndarmál, en þær eru leyndarmál, af öryggisástæðum er sagt. (Forseti hringir.) Lögreglan telur sig ekki þurfa heimildir til að (Forseti hringir.) kaupa dróna. Við eigum að ræða þessi mál hér, (Forseti hringir.) það er mikilvægt að slíkar ákvarðanir séu teknar hér með lýðræðislegu umboði sem greinilega er ekki til staðar.