144. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

240. mál
[15:49]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Þessi aðgerð er stórfelld björgunaraðgerð til bankakerfisins og felur í sér, eins og í þessu tilviki hér, að greiddir séu upp greiðslujöfnunarreikningar sem bankar hafa fallist á að fá ekki borgaða fyrr en eftir áratugi og jafnvel afskrifa að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Það er sem sagt verið að borga bönkum peninga sem bankar hafa fallist á að innheimta ekki.

Þar fyrir utan er stefnt að mörgu öðru sem horfir til ójafnræðis og ósanngirni. Stærst er náttúrlega það að það eigi að verja opinberu fé til þess að greiða niður kröfur sem hafa glatað veði, kröfur sem standa eftir á einstaklinga eftir að búið er að selja ofan af þeim húsnæðið. Í staðinn fyrir að afskrifa slíkar kröfur eins og eðlilegt er ætlar þessi ríkisstjórn að gefa fjármálafyrirtækjunum þessa peninga. Tapaðar kröfur verða greiddar upp í topp.

Síðan er hægt að rekja fjöldamörg önnur atriði fullkominnar ósanngirni í þessari ráðstöfun (Forseti hringir.) sem hefði verið full ástæða til að flytja breytingartillögu um. Því miður er búið að (Forseti hringir.) samþykkja um þetta lög en það verður auðvitað þannig að (Forseti hringir.) fjöldi fólks mun sjá að það fær ekki úrlausn með þessari aðferð.