144. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2014.

fjármögnun byggingar nýs Landspítala.

25. mál
[16:13]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er einn flutningsmanna tillögunnar og þarf því kannski ekki að hafa mörg orð um það að ég er hjartanlega sammála hv. þm. Kristjáni Möller í þessu máli.

Hv. þingmaður rakti ágætlega þörfina fyrir nýjan Landspítala og hversu aðkallandi það sé að fara í þá framkvæmd. Ég held að flestum sé orðið ljóst að óumflýjanlegt er að fara í þessa aðgerð. Það verður að gerast.

Hins vegar er áherslan með tillögunni að finna leiðir til fjármögnunar. Mig langar aðeins til að eiga smá orðastað við 1. flutningsmann um nákvæmlega það atriði. Nokkrar leiðir hafa verið nefndar, sérstök skattlagning. Nú er verið að grípa til hennar til dæmis til að fjármagna mjög umdeilda aðgerð, þ.e. skuldaleiðréttingar. Það er sérstök skattlagning upp á 80 milljarða, þannig að fordæmin eru fyrir hendi hvað það varðar.

Alltaf var rætt um lántöku sem leið í þessu. Rætt var um að lífeyrissjóðirnir gætu jafnvel lánað til verkefnisins þar sem þar er nú líka mikil þörf til að koma fjármagni í vinnu. Af hverju hefur það ekki gengið eftir?

Talað er um sölu ríkiseigna. Er það eitthvað sem hv. þingmanni hugnast? Sér hann einhver dæmi um ríkiseignir sem hægt væri að selja til að fjármagna spítalann?

Ég heyrði um daginn nefnt, og varpa því hér fram án þess að hafa skoðað það eitthvað ofan í kjölinn, hvort Íbúðalánasjóður gæti lánað til Landspítala? Íbúðalánasjóður lánar til hjúkrunarrýma. Þar er að safnast upp mikið fé vegna uppgreiðslu. (Forseti hringir.) Getur hv. þingmaður haft fleiri orð um það hvaða (Forseti hringir.) leiðir eru hugsanlega fleiri (Forseti hringir.) og hvaða leiðir það eru sem honum hugnast mögulega best á þessum (Forseti hringir.) tímapunkti?