144. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2014.

fjármögnun byggingar nýs Landspítala.

25. mál
[16:15]
Horfa

Flm. (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni, einum af flutningsmönnum tillögunnar, fyrir andsvarið og þær spurningar sem hér eru settar fram og snúa að þessu stærsta máli sem er fjármögnun. Hann nefndi nokkur atriði sem eru líka nefnd í tillögunni og vitnað er til í þeirri síðustu tillögu sem samþykkt var. Hann nefndi fyrst lántöku lífeyrissjóða. Lífeyrissjóðir hafa mikla þörf fyrir að koma sínu fé í vinnu. Það eru miklar upphæðir sem þeir hafa á hverju ári og fjárfestingarkostir eru ekki mjög margir til að fara í. Já, ég tel þá leið mjög vel færa sem eina af þeim leiðum sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson nefndi í sambandi við hina tillöguna, að fara blandaða leið. Það var fyrst nefnt þá að fara blandaða leið.

Ég hef auðvitað hlustað á sjónarmið frá fulltrúum í öllum flokkum, m.a. fjármálaráðherra, sem hafa talað um sölu ríkiseigna án þess að það sé sérstaklega tilgreint hverjar. En ég hef líka hlustað á þau rök um að við tökum frá fé á fjárlögum, þó að ekki sé nú mikið til, til að leggja í verkefnin. Þess vegna er þessi tillaga sett fram vegna þess að svo mörg ólík sjónarmið eru hér á Alþingi um hvernig þetta skuli gert. Ég er algjörlega sannfærður um, virðulegur forseti, að hægt er að fara þessa blönduðu leið.

Með þeim breytingum sem hafa verið gerðar á lögum hvað varðar bókhald ríkissjóðs og annað þá er þetta mjög fær leið. En aðalatriðið og það sem ég hef horft mest á er að fá lífeyrissjóðina í lið með okkur. Hvar gætu lífeyrissjóðirnir lánað til betri verkefna en þess að byggja nýjan Landspítala?

Eins og komið hefur fram er í fyrsta áfanga fjárþörfin kringum 40 milljarðar kr. á sjö árum, þannig að þetta er ekki mikil upphæð sem slík. Ég hef líka leikið mér að því að setja upp greiðslulíkan fyrir svona dæmi þar sem tekið er mið af vöxtum og verðbólgu (Forseti hringir.) og tel að þetta sé mjög vel framkvæmanleg leið. En fyrst og fremst, virðulegi forseti, tel ég (Forseti hringir.) að skoða eigi hvaða blönduðu leið er hægt að fara.