144. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2014.

fjármögnun byggingar nýs Landspítala.

25. mál
[16:17]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka svarið. Hin blandaða leið hugnast mér líka ágætlega. Ég er í rauninni á þeim tímapunkti að mér finnst margar leiðir koma til greina eins og ég rakti í fyrri hluta andsvarsins. Mér finnst við vera komin á þann stað núna í þessu máli að það þurfi bara að taka ákvörðun. Það er auðvitað svolítið einkennilegt að koma þurfi með sérstaka tillögu um það að fara þurfi að taka ákvörðun um að framkvæma hlut sem við erum búin að samþykkja að þurfi að gera, sem er að byggja nýjan Landspítala.

Hv. þingmaður hefur fjallað mjög mikið um þessi mál og verið 1. flutningsmaður að tillögum um byggingu nýs Landspítala áður, m.a. þeirri sem var samþykkt á fyrra þingi. Það vekur athygli mína hversu erfiðlega gengur að fá fjármögnunina, fá ákvörðun í málinu. Það vakti til dæmis athygli mína að lífeyrissjóðirnir voru ekki reiðubúnir að koma inn í þessa fjármögnun á sínum tíma. Lagt var upp með það strax á árunum eftir hrun og sú vinna var komin býsna langt að lífeyrissjóðirnir kæmu inn í verkefnið með fjármögnun. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður geti gefið mér og öðrum einhverja innsýn inn í það eða hugmynd um af hverju þetta hefur strandað. Hver er í huga hans stærsta hindrunin í því verkefni að finna þessari mikilvægu aðgerð fjármögnun? Hver er hindrunin?