144. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2014.

fjármögnun byggingar nýs Landspítala.

25. mál
[16:19]
Horfa

Flm. (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður ræddi þetta af ákefð og mikilli þekkingu eins og ég veit að hann hefur haft á þessu máli. Það voru kannski þau tvö orð sem hann sagði að taka þurfi ákvörðunina, sem er aðalatriðið. Það vantar og þess vegna kemur þessi tillaga fram. Það náðist ekki síðast að búa til þverpólitíska nefnd fulltrúa allra flokka á Alþingi til að reyna að skapa sátt innan þingsins og síðast en ekki síst þjóðarsátt um þetta stóra og mikilvæga mál. Í þeirri þjóðarsátt á Alþingi erum við líka kannski að taka ákvörðun um að bíða aðeins með ýmsar aðrar framkvæmdir og hafa þetta sem aðalframkvæmdina. Þetta er náttúrlega rosaleg innspýting. Því miður hafa margir iðnaðarmenn þurft að flytja af landi brott, en verkefnið með því að áfangaskipta því svona eins og hér er eykur líkur á að íslenskir verktakar muni bjóða í verkefnið.

Það sem hv. þingmaður ræddi um með lífeyrissjóðina, þ.e. að þeir hafi verið tregir til fyrst eftir hrun, þar sem síðasta ríkisstjórn lagði fram tillögu, að þar var verið að tala um svokallaða rekstrarleiguleið. Út úr þeirri skoðun kom að enginn nógu stór aðili á Íslandi var til til að taka að sér þetta mikla verkefni, þ.e. að taka þátt í töluverðri hönnun, tryggja fjármögnun og framkvæma verkið og eiga það og láta svo ríkið borga sér leigu fyrir það þar á eftir. Þess vegna þurfti að splitta verkefninu upp. Það var ákveðin niðurstaða sem kom í því.

Ég held að sú leið sem hér er verið að tala um sé miklu betri, þessi blandaða leið. Í mínum huga sé ég að stærst væri þá lántaka hjá lífeyrissjóðunum sem við ætluðum svo að greiða á ákveðnu tímabili. Þess vegna gætum við haft í þeim lánaskilmálum uppgreiðsluheimild án þóknunar, þ.e. ef okkur tækist að selja og sátt yrði um að selja einhverjar ríkiseignir eða hluta í þeim til að leggja inn á höfuðstólinn og lækka þar með fjármagnskostnaðinn. (Forseti hringir.) Leiðirnar eru til. Okkur vantar bara (Forseti hringir.) að sátt verði um þær.