144. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2014.

fjármögnun byggingar nýs Landspítala.

25. mál
[16:40]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Kristjáni L. Möller fyrir að flytja þessa tillögu. Ég er ein af fjölmörgum meðflutningsmönnum hennar. Eins og fram hefur komið leggjum við þingmennirnir til að skipuð verði sex manna þingnefnd sem vinni með stjórnvöldum að því að finna fjármögnunarleiðir, áfangaskiptingu og önnur álitamál sem tengjast framkvæmd málsins. Þegar verið er að takast á við verkefni sem mönnum og konum kann að þykja stór og umfangsmikil þá er heppilegt að búta þau niður í minni einingar og sjá að verkefnið er vel viðráðanlegt.

Mig langaði aðeins að setja þetta mál í samhengi. Það þarf að klára hönnunina. Fullnaðarhönnun tekur um tvö ár. Síðan þarf að byggja byggingarnar og búa þær tækjum. Í heildina kostar það tæplega 68 milljarða. Það eru umtalsverðir fjármunir, en þeir dreifast á um það bil tíu ár. Það eru tæpir 7 milljarðar á ári. Það eru ekki miklir peningar. Ef við hugsum um þá sem hlutfall af ríkisútgjöldum þá er um að ræða 1% af ríkisútgjöldum árlega og 0,36% af landsframleiðslu árlega fyrir sjúkrahús af bestu gerð með eðlilega aðstöðu í nútímavelferðarsamfélagi.

Ef við setjum þessa tæplega 7 milljarða á ári í samhengi við önnur útgjöld ríkisins þá er upphæðin innan við helmingur af því sem við setjum í búvörusamninga á ári. Þetta er ekki meira en það. Við setjum 12,6 milljarða í búvörusamninga og við mundum setja 6,8 í Landspítalann árlega. Þetta er nú ekki lántaka sem getur sligað ríkissjóð.

Eins og bent hefur verið á verður af þessu mikið rekstrarhagræði. Hv. þm. Kristján L. Möller fór hér yfir rannsóknarstofurnar sem við rekum á tveimur stöðum og skurðdeildirnar sem eru á mismunandi stöðum, bráðadeildirnar sem eru á fimm mismunandi stöðum. Auðvitað er rekstrarhagræði í því að hafa allt á einum stað.

Við getum farið yfir fleiri þætti málsins. Hvað erum við að spara meira? Við erum að spara 9 þús. ferðir með sjúklinga á milli bygginga á ári, svo við tölum nú ekki um áhrif á heilsufar sjúklinganna við að losna við þessar ferðir í sjúkrabíl. Við spörum 25 þús. ferðir með starfsfólk og sýni og fleira á milli bygginga á ári, og ekki bara milli bygginga heldur staða því að spítalinn er í yfir 100 byggingum á 17 stöðum. Við spörum einnig þúsundir ferða vegna sótthreinsunar. Sótthreinsunardeildin er á Tunguhálsi upp við Rauðavatn. Það eru 11 skipulagðar ferðir þangað á dag. Ég vil benda hv. þingmönnum úr Sjálfstæðisflokki, sem hafa efast um þetta, en þeir hafa státað sig af því að vera menn atvinnulífsins og skilja rekstur, að ef þeir horfast ekki í augu við rekstrarhagræðið af þessu þá vil ég ítarlegar útskýringar á því. Við munum líka spara þegar dregur úr spítalasýkingum þar sem 86% sjúklinga á Landspítala í dag deila salerni með öðrum. Af því er sýkingarhætta. Það er algjörlega óviðunandi.

Ég hef oft tjáð mig um mikilvægi nýs sjúkrahúss. Það hafa margir þingmenn hér inni gert. Það sem við verðum að horfast í augu við er að þetta verkefni þolir enga bið. Það er ábyrgðarleysi af okkur sem hér erum að fresta því enn á ný. Ég held að það verði seint fyrirgefið ef við sláum þessu stöðugt á frest því að það grefur undan heilbrigðiskerfinu.

Nú eru læknar komnir í verkfallsaðgerðir. Þeir eru auðvitað að hugsa um kjör sín í formi launa, en við munum líka eiga erfiðara og erfiðara með að manna sjúkrahús sem uppfyllir ekki nútímakröfur hvað varðar aðstöðu til að sinna starfinu og sjúklingunum og tækjabúnað.

Ég held að nefndin, sem lagt er til að verði skipuð, geti skilað niðurstöðum sínum fyrr. Ég held að mikilvægt sé að skipa þessa nefnd og fara yfir málið. Þá munu fleiri gera sér grein fyrir að þetta er ekki það óyfirstíganlega verkefni sem stundum er látið líta út fyrir, eins og það sé verið að reyna að afsaka frekari einkavæðingu af því við þurfum að byggja sjúkrahús. Þetta er mikilvægt verkefni og stórt í þeim skilningi. Auðvitað eru þetta umtalsverðar framkvæmdir og fjármunir en ef við horfum á það í því samhengi sem eðlilegt er að horfa á það, sem árlegar fjárveitingar næstu sjö til tíu árin, þá eru þetta tiltölulega hóflegar fjárhæðir sem er ekkert vandamál að rúmist innan fjárlagaramma. Þetta mun skila sér í rekstrarhagræði og mun skila sér í því að okkur mun haldast hér á sérhæfðu heilbrigðisstarfsfólki og stuðla almennt að framförum í samfélaginu því að fólk mun fara ef þessu verður áfram slegið á frest.

Það á að sjálfsögðu að leggja til að inn í þetta komi fjárveitingar á næsta fjárlagaári til að hægt verði að ljúka hönnuninni. Forhönnun liggur fyrir en það á eftir að klára þetta.

Það fjarar hratt undan samfélagi þar sem fólk missir trúna á heilbrigðiskerfið. Við höfum ekki efni á því.

Ég legg til að þessi þingsályktunartillaga verði samþykkt sem fyrst, nefndin skipuð og það verði samstaða hér fyrir 3. umr. fjárlaga um að leggja til það fé sem þarf til þess að hægt verði að ljúka hönnun á nýja sjúkrahúsinu okkar.