144. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2014.

fjármögnun byggingar nýs Landspítala.

25. mál
[16:48]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég held að það sé mjög mikilvægt að þrýst sé á um þetta framfaramál með öllum tiltækum ráðum, þar á meðal eins og lagt er til í þessari tillögu og er ágætishugmynd að sérstök þingmannanefnd fái það verkefni að fylgja málinu eftir og vinna að því hörðum höndum. Hér er að vísu sá hængur á að inn á tillöguna vantar þingmenn úr stjórnarliðinu. Vandinn er auðvitað sá að stjórnarliðið, ráðherrar og meiri hlutinn, skilar auðu í þessu máli eins og það birtist mér, því miður. Það hefur ákaflega lítið gerst í þessu, lítið þokast og lítil svör fengist um eins og hálfs til tveggja ára skeið frá því að heimildir voru teknar inn í lög á öndverðu ári 2013 og lögum breytt til þess að halda áfram af fullum krafti eins og þá var áformað með undirbúninginn að byggingu nýs Landspítala. Menn horfðust þá í augu við þann veruleika sem var auðvitað allan tímann besti kosturinn að væntanlega yrði þetta að vera venjuleg opinber framkvæmd.

Við þurfum nýbyggingu fyrir Landspítalann. Það er einfaldlega óumdeilanleg staðreynd. Ég held að hvernig sem menn rýna í skýrslur og gögn í þeim efnum þá blasir við okkur að við getum ekki rekið heilbrigðisþjónustu í fremstu röð, þar sem Landspítali – háskólasjúkrahús er móðurstöð sérhæfðrar heilbrigðisþjónustu í landinu, án þess að bæta úr ástandinu þar. Það vita allir og hafa allir séð fréttirnar af ástandi húsakostsins sem þar er notast við, óhagræðið af því að reka það á mörgum stöðum og í grunninn á tveimur meginstöðum með gríðarlegum flutningum, tilkostnaði og tvöföldun í vöktum, móttöku og mörgu slíku sem allt sparast með einum nýjum móðurkjarna, meðferðarkjarna og bráðaþjónustukjarna á Landspítalalóð.

Langeðlilegast er að Landspítalinn okkar sé byggður af ríkinu sjálfu og ríkið sjálft eigi hann. Hvað á eiginlega þessi þjóð að eiga saman ef hún á ekki að eiga Landspítala sinn saman? Þess vegna verð ég að segja að þrátt fyrir góðan hug á bak við allar hugmyndir um að fara með þetta í annað form hef ég alltaf átt erfitt með það, þótt ég vilji frekar sjá eitthvað gerast heldur en ekki neitt. Ég tel að nú séu þeir tímar gengnir í garð, komin sex ár frá hruni og ástand og aðstæður í þjóðarbúinu hafa lagast svo verulega, að ég er ósammála því sem enn er haldið fram að nýbygging Landspítala – háskólasjúkrahúss sé óviðráðanlegt verkefni fyrir ríkið. Ég er einfaldlega ósammála því.

Ég hef sjálfur lagt fram frumvarp ásamt tveimur öðrum hv. þingmönnum, Svandísi Svavarsdóttur og Steinunni Þóru Árnadóttur, þar sem við bendum á einn valkost í þessum efnum. Þetta er 169. mál þessa þings sem vonandi kemst á dagskrá fljótlega. Það er ósköp einfaldlega að menn marki þessu verkefni sérstakan tekjustofn í nokkur ár. Stofnaður verði byggingarsjóður fyrir Landspítalann sem fái markaðar tekjur, ávaxti þær svo eftir því sem þær innheimtast hraðar en byggingunum vindur fram, hafi af þeim vaxtatekjur, verði sjálfstæður aðili í þeim skilningi, geti tekið við framlögum ef einhverjir vilja leggja rausnarlega inn í verkefnið enda séu þau afhent byggingarsjóði Landspítalans kvaðalaust til að byggja hann. Og til dæmis með því að framlengja í fimm ár breytta og mildari útgáfu af auðlegðarskatti ættum við fyrir nýjum Landspítala og værum komin með þær tekjur í hús á árinu 2020. Ef við settum slík lög núna fyrir áramótin fengjum við á nýjan leik tekjur af auðlegðarskattinum á árinu 2016, því það kemur gat í hann þar sem núverandi ríkisstjórn hirti ekki um að framlengja hann. Eða við færum aðrar leiðir, þær eru margar færar til að búa til það svigrúm sem þarf til að hægt sé að byggja nýjan Landspítala – háskólasjúkrahús.

Ég tek undir með síðasta ræðumanni, hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, að við eigum ekki að mikla þetta fyrir okkur. Má ég prófa að setja þetta í smá samhengi? 45–50 milljarðar, segjum 50 milljarða byggingarkostnaður, þar af um tæpir 40 milljarðar í meðferðarkjarnann sjálfan, hvað er það? Það er 1–1,2% af niðurstöðutölu fjárlaga eins og þær eru núna. Það er ekki nema 1,2 eða 1,3% af niðurstöðu fjárlaga í ár. Hvað er það af landsframleiðslu? Það er 0,3–0,4% af vergri landsframleiðslu eins og hún verður t.d. á næsta ári upp á kannski 1.900 milljarða kr. Hver er kominn til að segja okkur að það sé óviðráðanlegt fyrir okkur að búa okkur til þá stöðu að á næstu sex til átta árum getum við fundið svigrúm fyrir fjárhæð af þessu tagi? Þetta er 1,5% af fjárlaganiðurstöðutölunni, 0,3–0,4% af vergri landsframleiðslu hvers árs ef við deilum þessu á um 7 milljarða á ári á þessu árabili.

Hæstv. fjármálaráðherra heldur sig við þær ræður að ekkert svigrúm sé í hinum opinbera búskap næstu árin til að byggja nýjan Landspítala. Það eru tilbúnar forsendur, það segi ég sem gamall fjármálaráðherra. Þær eru það m.a. vegna þess að sami hæstv. fjármálaráðherrann telur vera svigrúm til lækkunar skatta. En er það ekki val að draga úr því tekjutapi ríkisins sem óskilgreindar væntanlegar skattalækkanir á næstu árum mundu ella búa til og byggja nýjan Landspítala? Auðvitað getur ríkið það og auðvitað á ríkið að gera það og það er ódýrast, því þennan kostnað mun ríkið greiða að lokum með einum eða öðrum hætti, hverja einustu krónu. Þá er best að reyna að leita ódýrustu lausnanna. Þá minni ég á fyrrverandi bæjarstjóra í Kópavogi, Gunnar Birgisson, sem var sjálfstæðismaður, en hann var nógu jarðbundinn til þess að vísa frá öllum hugmyndum um fjallabaksleiðir í sambandi við uppbyggingu í Kópavogi, einfaldlega vegna þess að hann sagði að þær væru dýrari og fór ekki inn í fasteignir eða aðrar slíkar æfingar. Má ég biðja um svoleiðis raunsæismenn jafnvel þótt þeir komi af hægri kantinum.

Auðvitað verður það ódýrast að ríkið byggi spítalann sjálft. Ríkið er líka með lægsta fjármögnunarkostnaðinn ef þarf að taka að einhverju leyti lán. Og já, það er ekkert að því þó að þetta leiddi til þess að einhverju marki að ríkið tæki lán eða greiddi hægar niður skuldir vegna þess að við erum ekki að tala hér um að taka lán í rekstur. Við erum að taka lán í gríðarlega mikilvægri, þjóðhagslegri og velferðarlegri framtíðarfjárfestingu fyrir Ísland.

Við munum ekki reka nútímalæknisfræði nema í nútímahúsnæði. Við getum ekki keypt og sett inn í núverandi húsnæði sum af dýrustu og mikilvægustu tækjunum sem þarf fyrir nútímaþjónustu. Við getum ekki boðið sérhæfðu starfsfólki upp á vinnuaðstæður sem það sættir sig við nema í þar til gerðu húsnæði. Og rekstrarkostnaðurinn mun sparast verulega um leið og við fáum nýjan Landspítala á einum stað. Það er borðleggjandi.

Að síðustu er það þannig, eigandi andvökunætur liggur mér við að segja yfir ástandinu í heilbrigðiskerfinu, sem ég held að sé að verða svo grafalvarlegt að við verðum að taka það mjög alvarlega sem þjóð — þá er ég að tala um allan pakkann, mönnunarvandamál, vinnuaðstæður, vinnuálag og götin sem eru augljóslega fram undan í sérhæfðu starfsfólki á mörgum sviðum, ekki síst í sérfræðigreinum læknisfræðinnar — ef ekki verður bregður verulega til hins betra á allra, allra næstu árum. Eða hafa menn ekki fylgst með fréttunum af ástandinu t.d. í krabbameinslækningum eða í myndgreiningu, röntgenlækningum, lyflækningum og á fjölmörgum öðrum sviðum? Þar er meðalaldurinn orðinn mjög hár, endurnýjun lítil og fullkomin óvissa um að þó það fólk sem er að sérhæfa sig í námi á þessum sviðum komi yfir höfuð heim ef ekki verður hægt að bjóða því a.m.k. betri vinnuaðstæður og helst auðvitað samkeppnishæfari laun.

Við erum að tala um í mínum huga lykilinn að því að brjótast út úr þeirri herkví sem heilbrigðismálin eru að komast í hjá okkur sem þjóð. Það verður að fara að finna lausn í þeim efnum. Hvert einasta ár, mér liggur við að segja hver einasti mánuður eða dagur sem þessi mál malla áfram í óvissu, er okkur óhemjulega dýr. Ég tel mig þekkja það ágætlega af eigin raun og gegnum mín sambönd að meðan þessi undirbúningur var á fullri ferð á hvað erfiðustu árunum þá hélt það ljósinu logandi á Landspítalanum að það væru þó a.m.k. fram undan úrbætur á þessu sviði, meðan fólk tók á sig niðurskurð og lagði á sig mikla vinnu og aukið álag við erfiðar aðstæður. (Forseti hringir.) Það má ekki slökkva þetta ljós, frú forseti. Þess vegna verður að koma inn í fjárlögin fyrir afgreiðslu (Forseti hringir.) þeirra núna í desember einhverju sem vísar á lausn málsins.