144. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2014.

staða barnaverndar í landinu.

[17:13]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir það frumkvæði að ræða um barnavernd á Íslandi. Ég held að við séum öll sammála um mikilvægi þess að gæta að velferð barnanna okkar. Það er óumdeilt að velferð barna á fyrstu æviárunum leggur grunn að allri þeirra framtíð. Þar kemur til umhyggja foreldra og almenn þjónusta, svo sem öflug mæðraskoðun og ungbarnaeftirlit, góðir leikskólar og grunnskólar sem tryggja flestum börnum farsæla æsku og uppvaxtarár, en einstaka barn þarf meiri aðstoð.

Hv. þingmaður spyr hvað þyrfti að gera betur og hvort verið væri að nýta alla möguleika. Ég verð að svara því þannig að ég tel svo ekki vera. Ég tel að við þurfum að bæta okkur verulega til að tryggja að þau þjónustukerfi sem við höfum í velferðarsamfélagi okkar vinni mun betur saman. Þá er ég að tala um heilbrigðiskerfið, skólakerfið, félagsþjónustuna og barnaverndina, að ógleymdu að sjálfsögðu samstarfi við foreldrana og börnin sjálf. Við erum ekki að mínu mati með nægilega heildstætt þjónustuferli. Við höfum alveg heyrt af því að foreldrar og svo börnin og unglingarnir upplifa að þegar kemur að þessum þáttum sé ábyrgð ekki nógu skýr og farvegur samstarfs allt of óljós.

Það skiptir svo miklu máli að grípa inn í nógu snemma. Það vill kannski gleymast svolítið í umræðunni hver ber ábyrgð fyrst og fremst á því að veita þá þjónustu sem barnavernd er og líka þeir sem eru með félagsþjónustuna, stuðninginn utan um þá sem þurfa virkilega á aðstoð að halda í okkar samfélagi, og það eru sveitarfélögin. Félagsþjónusta sveitarfélaganna veitir foreldrum almenna ráðgjöf, m.a. í uppeldismálum, og barnaverndarnefndir koma til skjalanna þegar vandi barns er orðinn alvarlegur og hætta talin á því að heilsu og þroska barns sé hætta búin vegna eigin hegðunar.

Úrræði barnaverndarnefnda eru margþætt, þar með talin leiðsögn til foreldra, að stuðla að því í samvinnu við hlutaðeigandi stofnanir að börn njóti þjónustu samkvæmt öðrum lögum, útvega barni viðeigandi stuðning eða meðferð eða útvega barni eða fjölskyldu persónulegan ráðgjafa eða stuðningsfjölskyldu. Einnig geta barnaverndarnefndir beitt úrræðum utan heimilis, svo sem fóstri, styrktu fóstri eða vistun á meðferðarheimili.

Á vegum Barnaverndarstofu eru sem sagt rekin úrræði sem barnaverndarnefndir geta nýtt sér, meðferðarheimili og einnig MST-fjölkerfameðferðin, sem felur í sér aðstoð utan stofnana fyrir börn og fjölskyldur þeirra vegna alvarlegs hegðunar- og fíkniefnavanda. Markmiðið er að efla og styðja fjölskylduna til að takast á við vandann og bregðast við bakslögum. Það er unnið þétt í umhverfi barnsins og eru samstarfsaðilar meðal annarra skólakerfið, Barna- og unglingageðdeild, Fjölsmiðjan og lögreglan.

Í dag er þessi þjónusta, MST-þjónustan, aðeins í boði í 100 km radíus frá Reykjavík. Ég er núna að leita leiða til að tryggja að við getum tryggt börnum alls staðar á landinu MST eða sambærilega þjónustu.

Ég vil líka nefna að það er hafin vinna við endurskoðun barnaverndar og félagsþjónustu. Ég hef þá sýn að sú vinna ali af sér nýja og öfluga stjórnsýslustofnun sem renni einmitt stoðum undir þessa heildstæðu velferðarþjónustu ríkis og sveitarfélaga, hvort sem í hlut eiga börn, fullorðnir, aldraðir eða fatlað fólk. Sveitarfélögin gegna í mínum huga lykilhlutverki í allri nærþjónustu og fá í því skyni nauðsynlegan tilstyrk ríkisins, sem aftur á móti er eðlilegt að sinni eftirliti með gæðum þjónustunnar og samhæfingu milli stjórnsýslustiga.

Ég sé þannig fyrir mér að við getum eflt og aukið möguleika sveitarfélaganna til að veita samræmda þjónustu við börn og fullorðna sem glíma við fjölþættan vanda og þar skiptir snemmtæk íhlutun mjög miklu máli þannig að þeir sem annast og umgangast börnin frá degi til dags séu vakandi fyrir frávikum í hegðun og þroska barna og geti brugðist við með aðkomu sérfræðinga þegar þörf krefur. Þar hljóta skólarnir okkar að gegna lykilhlutverki þó að einnig þurfi að hafa vökul augu í heilsugæslunni og annars staðar þar sem börnum er sinnt. Þessi samvinna skiptir mjög miklu máli.

Varðandi tilkynningarnar hjá okkur tel ég jákvætt að við sjáum að tilkynningum hefur fjölgað jafnt og þétt vegna þess að fólk lætur vita. Það er það sem vitundarvakningin gekk út á, að hafa í huga að félagsþjónustan og barnaverndin eru þarna til að hjálpa fólki, (Forseti hringir.) tryggja það að við gætum að börnunum okkar eins vel (Forseti hringir.) og hægt er.

Þegar ég kem síðan aftur hingað (Forseti hringir.) fer ég aðeins betur í gegnum starfsemi Barnahúss (Forseti hringir.) og annað sem við erum að vinna að núna sem snýr að þessu.