144. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2014.

staða barnaverndar í landinu.

[17:18]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Það er mikilvægt að við ræðum stöðu barna og svo barnaverndar í landinu á hverjum tíma og fylgjum þeim málum sem allra best eftir.

Það hefði verið gaman að heyra aðeins meira frá hæstv. ráðherra um framkvæmdina varðandi Barnahús. Ég veit að þar var settur inn peningur á sínum tíma og átti að reisa nýtt hús og efla starfsemina þar.

Mig langar líka að spyrja ráðherrann hvað hafi orðið um allar þær tillögur sem samráðshópur fyrrverandi forsætisráðherra um samhæfða framkvæmd stjórnvalda lagði fram til að tryggja skilvirk úrræði fyrir þolendur kynferðisbrota, einkum barna. Ég er að vísu með skriflega fyrirspurn til ráðuneytanna um þetta en þarna eru 27 tillögur sem meira og minna voru svo þurrkaðar út í fjárlögum. Þar átti að taka á mörgum af þessum samráðsverkefnum sem hér er verið að tala um. Þarna var samráðshópur barnaverndaryfirvalda, lögreglu og ákæruvalds, samstarf lögreglu og sveitarstjórna og barnaverndarnefnda til að fylgja því eftir hvernig haldið er utan um hlutina. Settir voru peningar í að styrkja löggæsluna og dómskerfið, hvernig farið væri með þessi mál. Það átti að efla það að Barnahús færi með rannsóknir í sambandi við nauðganir og aðra slíka hluti. Hvað líður þessari vinnu þess þverfaglegs hóps sem var með gríðarlega öflugar og góðar tillögur hvað þetta varðar?

Ég verð að segja svo aðeins af því að það kemur hér upp að hæstv. ráðherra hefur sett af stað vinnuhóp til að búa til stjórnsýslustofnun til að vinna með barnaverndarmál, þá bæði um einhverja miðstöð, höfuðstöðvar og aðrar starfsstöðvar, að það skemmdi fyrir þessu máli og fyrir okkur sem erum miklir landsbyggðarmenn að það kom allt í einu í fjölmiðlum frá hæstv. ráðherra að það væri búið að velja þessu stað áður en fram fór greining á verkefninu, hver þörfin væri o.s.frv. Það kemur líka á óvart hvaða stofnanir eru settar þarna saman, þ.e. Barnaverndarstofa, Fjölmenningarsetur og svo (Forseti hringir.) réttindagæslumenn fatlaðs fólks.