144. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2014.

staða barnaverndar í landinu.

[17:20]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur, fyrir að taka þetta mál upp á Alþingi. Það er tilefni til sögulegrar upprifjunar en í ljósi hennar er oft ágætt að skoða samtímann.

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna er núna orðinn 25 ára gamall, hann var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1989. Við fullgiltum hann 1992 og lögleiddum síðan 2013. Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna byggir á réttindum barna. Það á að hlusta á börn, það er rauði þráðurinn. Fram til þessa hafði í alþjóðlegum sáttmálum fyrst og fremst verið horft til verndar barna, leiða til að vernda börn, og það má segja að íslenska Barnahúsið byggi á þessu tvennu, að vernda barnið og hlusta á barnið.

Þarna voru Íslendingar frumkvöðlar. Við stofnsettum okkar Barnahús 1998, þremur árum eftir að Barnaverndarstofan var sett á laggirnar, en aðrar þjóðir komu í kjölfarið. Svíar opnuðu sitt fyrsta barnahús 2005, þau eru 30 talsins þar nú, Norðmenn 2007, þau eru tíu talsins, Danir 2013, þau eru orðin fimm, Finnar eru að opna á þessu ári og Grænlendingar og Færeyingar munu vera komnir með sitt barnahús.

Síðan má nefna Lanzarote-samkomulagið sem byggir á því að verja börn gegn ofbeldi. Það er frá árinu 2010 og er á vegum Evrópuráðsins. Við undirgengumst það í ársbyrjun 2013 og höfum látið mjög að okkur kveða í þeim efnum, eigum formann í nefnd Evrópuráðsins sem sinnir því, Braga Guðbrandsson.

Þá er komið að samtímanum. Ég hef áhyggjur af því að það sé verið að draga úr fjárveitingum til að vernda börn. Í tíð síðustu ríkisstjórnar var sett umtalsvert fjármagn í áætlun þar að lútandi (Forseti hringir.) og ég mun svo sannarlega fylgjast með því í fjárlagaumræðunni (Forseti hringir.) þegar þar að kemur hvernig fjárhagslega verður búið að því átaki.