144. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2014.

staða barnaverndar í landinu.

[17:31]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Opinbert barnaverndarstarf hófst á Íslandi með setningu laga árið 1932. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og lögin oftsinnis verið endurskoðuð. Barnaverndarstofa var stofnuð 1995 og með því átti að tryggja að fagleg stofnun hefði yfirsýn yfir málaflokkinn. Við höfum barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna eins og við þekkjum, sem var löggiltur á Íslandi 2013, og heildarendurskoðun var gerð á barnalögum fyrir um tveimur árum.

Hlutverk Barnaverndarstofu er annars vegar að vera ráðgefandi og fræða og hins vegar að hafa með hendi eftirlitshlutverk með barnaverndarnefndum sveitarfélaga. Mikilvægt er að Barnaverndarstofa hafi bolmagn til að sinna hlutverki sínu og veita barnaverndarnefndum leiðbeiningar og ráðgjöf varðandi fjölskylduvernd og úrlausn barnaverndarmála. Með sameiningu barnaverndarnefnda á undanförnum árum hefur verið leitast eftir því að þær geti rækt hlutverk sitt enn betur og sinnt því vandasama verki sem þeim er falið. Barnaverndarnefndir geta leitað til Barnaverndarstofu og fengið aðstoð og úrlausn einstakra mála þegar þörf er á og má þar nefna fjölkerfameðferð og stuðningsúrræði ætlað fjölskyldum með unglinga með fjölþættan hegðunarvanda. Þetta úrræði, eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra áðan, nýtist þó ekki allri landsbyggðinni og er ég ánægð með að heyra að það er unnið að því að bæta þar úr.

Ég tel mjög mikilvægt að halda áfram með átakið gegn kynferðisofbeldi gagnvart börnum og tryggja því varanlegt fjármagn hjá Barnaverndarstofu. Barnahús hefur mikilvægt hlutverk. Við vitum að markmiðið í barnaverndarstarfi er að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður fái nauðsynlega aðstoð, að stutt sé við fjölskyldur í uppeldishlutverki sínu og að einstök börn séu vernduð (Forseti hringir.) þegar þörf er á.