144. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2014.

fjármögnun byggingar nýs Landspítala.

25. mál
[18:03]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er vissulega áhugavert sjónarmið hv. þingmanns og ég get skilið það sem hann segir hér. Ég skil einfaldlega ekki að þessi boð til framkvæmdarvaldsins séu ekki nógu skýr. Ég er kannski eitthvað óþolinmóðari en hv. þingmaður út af því að þetta lá fyrir, þetta lá fyrir meira að segja vel fyrir kosningar. Fyrir kosningar voru allir flokkar sammála um þetta og við heyrðum ýmis falleg kosningaloforð um að bjarga Landspítalanum og fara að byggja nýjan Landspítala hjá öllum flokkum. Þetta var frekar skýrt. Kannski voru einhverjir innan einhverra flokka ekki búnir að tala sig saman, en það hefur held ég gerst núna. Auðvitað þurfum við að eiga umræðuna til þess að það gerist, ég tek undir með þingmanninum með það. En ég er kannski bara óþolinmóðari en hv. þingmaður og get illa beðið því mér finnst skilaboðin hafa alltaf verið mjög skýr, ekki síst fyrir lok síðasta þings. Ég skil ekki eftir hverju hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. heilbrigðisráðherra eru að bíða.