144. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2014.

fjármögnun byggingar nýs Landspítala.

25. mál
[18:32]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi Landsbankann þá verðum við að hafa í huga að ríkissjóður skuldar allan sinn eignarhlut í bankanum. Er ekki rétt, áður en hv. Alþingi tekur ákvörðun um að selja ríkiseign, að skoða með hvaða hætti það ætlar að borga þær skuldir sem stofnað var til til að eignast þá eign? Ég ætla að benda hv. þingmanni á að það væri kannski gott og hyggilegt að lesa blaðagrein sem birtist í Morgunblaðinu á morgun eftir þann sem hér stendur um Landsbankann og landsbankabréfið.

Það sem ég er að velta fyrir mér er hvort hv. þingmaður geti ekki tekið undir að það sé a.m.k. einnar messu virði að setjast niður og athuga hvort lífeyrissjóðirnir séu ekki tilbúnir til þess að eignast hlut í Landsvirkjun, 25–30%, og við notum þá fjármuni til að fjármagna nýjan, glæsilegan, öflugan Landspítala og um leið verði samið um það að ríkið eigi einhliða kauprétt á eignarhlut lífeyrissjóðanna í Landsvirkjun og geti kallað hann aftur til sín að 25 árum liðnum. Það sem gerist er að ríkissjóður þarf þá ekki að greiða fjármagnskostnað af byggingarframkvæmdum. Það sem gerist líka er að við töppum af íslenskum fjármagnsmarkaði fé sem er nú að mynda hér bólu á fasteigna- og hlutabréfamarkaði o.s.frv.

Öll skynsamleg rök sýna að nú er einmitt tækifærið til að setjast niður til einnar messu og fara yfir þetta.