144. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2014.

fjármögnun byggingar nýs Landspítala.

25. mál
[18:36]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um fjármögnun byggingar nýs Landspítala og ég er einn flutningsmanna. Ég taldi það rétt miðað við það sem á undan er gengið og hvar við erum stödd í dag, taldi eðlilegt að á þessum tíma væri hægt að skipa nefnd þingmanna sem mundi skoða allar leiðir til fjármögnunar nýs Landspítala. En ég viðurkenni það fúslega að ég er ein af þeim sem telja að besta leiðin sé — ef ég fengi einhverju ráðið og fleiri væru á þeirri skoðun — að þetta yrði fjármagnað af fjárlögum ríkisins og að þjóðin byggði sinn eigin Landspítala; að hún fjárfesti þannig í framtíð lands og þjóðar og horfði til tekjuöflunar þar á móti.

Ég vil í þessu sambandi minna á að við höfum lög í landinu sem voru samþykkt 28. mars 2013, lög um byggingu nýs Landspítala, það er um breytingu á lögum sem voru samþykkt árið 2010 um stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala. Alþingi hefur því þessi lög í landinu sem hafa ekki fallið úr gildi og standa fyrir sínu. Þegar þessi lög voru samþykkt vorið 2013 greiddu eingöngu þrír þingmenn atkvæði gegn þeim. Það segir þá sögu hve breið samstaða var um byggingu nýs Landspítala en þar á meðal greiddu núverandi hæstv. ráðherrar atkvæði með því að nýr Landspítali yrði byggður. Vissulega hafði maður væntingar til þess að þegar viðkomandi hv. þingmenn væru orðnir hæstv. ráðherrar í nýrri ríkisstjórn mundu þeir fylgja þessum lögum eftir og fara í framkvæmdir. En raunin reyndist önnur og menn hafa ekki forgangsraðað í þágu nýs Landspítala, ekki með tekjuöflun, verið að afsala sér miklum tekjum í formi veiðigjalda og auðlegðarskatts svo að eitthvað sé nefnt. Við stöndum því í þeim sporum að leita allra leiða til að meta málið upp á nýtt því að þörfin er vissulega brýn.

Við þekkjum hollvinasamtökin sem hafa komið í heimsókn til margra hv. þingmanna og kynnt okkur hversu brýnt það er að endurnýja húsakost Landspítalans. Fram hefur komið að þjónustuþörf eykst um 3% á ári hjá 60 ára og eldri og á næstu 40 árum svo að við megum ekki ýta þessu stóra máli endalaust fram til komandi kynslóða. Við þekkjum það að gömlu byggingarnar mæta ekki kröfum og stöðlum nútímans og það er líka margt sem snýr að starfsmönnum Landspítalans sem við þurfum að hafa í huga. Við höfum því miður verið að missa margt hæft heilbrigðisfólk úr landi og því miður stefnir í áframhald þess að heilbrigðisstarfsfólk, hvort sem er hjúkrunarfólk eða læknar, sjái ekki fyrir sér að vinna hér á Landspítalanum eða hér á Íslandi eftir sitt nám. Eitt af því sem veldur því að þetta fólk tekur þá ákvörðun er hversu léleg aðstaðan er orðin á Landspítalanum og ekki virðist líta út fyrir að gera eigi bragarbót á því á næstunni.

Ég vil minna okkur öll á að Landspítalinn er ekki bara höfuðborgarsjúkrahús heldur spítali allra landsmanna.

Hér er ég með yfirlit yfir innlagnir á Landspítalann árið 2012 og þá er höfuðborgarsvæðið með 6,9% af innlögnum svo að sjá má að stór hluti þeirra sem leggjast inn hefur komið annars staðar að af landinu. Ég vil líka aðeins rökstyðja það að brýn þörf sé á byggingu nýs Landspítala. Við Vinstri græn höfum fjallað um þessi mál oftar en einu sinni og þau hafa mikið verið rædd á fundum hjá okkur í gegnum tíðina. Landspítalinn er þjóðhagslega hagkvæm framkvæmd, miklir fjármunir fara nú þegar aukalega á hverju ári í að reka spítalann á 17 stöðum í Reykjavík eins og nú er. Það er ljóst að þau útgjöld munu aukast jafnt og þétt eftir því sem árin líða. Byggingarnar sem hýsa spítalann eru flestar úr sér gengnar og þarfnast mikils viðhalds og endurnýjunar ef horfið verður frá því að sameina starfsemina undir nýju þaki.

Við vitum að Landspítalinn er flaggskip heilbrigðisþjónustu í landinu. Þar eru gerðar erfiðustu og flóknustu aðgerðirnar, þangað koma yfir 100 þús. sjúklingar á ári alls staðar af landinu. Landspítalinn er um 5 þús. manna vinnustaður og ein stærsta kennslu- og rannsóknarstofnun á heilbrigðissviði í landinu. Núverandi húsnæði getur ekki tekið við nauðsynlegum og nýjum tækjakosti, það er veruleikinn. Það stendur þjónustu við sjúklinga fyrir þrifum, veldur aukinni sýkingarhættu og vinnuaðstaða er erfið fyrir starfsmenn. Þess vegna hníga öll rök að því að fara af stað sem fyrst í byggingu nýs Landspítala.

En aftur að þingsályktunartillögunni sem hér liggur fyrir. Mér finnst að við eigum að láta reyna á það að flokkar geti rætt sig saman að einhverri niðurstöðu. Ég held að það sé bara heilbrigðisvottorð að gera það. Ég gæti svo sannarlega séð fyrir mér að nýr Landspítali yrði fjármagnaður með auðlegðarskatti. Það er ein af þeim leiðum sem mér hugnast mjög vel. Það eru eflaust til fleiri leiðir til að fjármagna Landspítalann. Við megum ekki hrökklast frá þessu verkefni og byrja að tala um einkavæðingu og sölu ríkiseigna. Mér finnst það vera til skammar fyrir þessa þjóð ef hún ætlar ekki að halda myndarlega utan um þetta mál. Eins og komið hefur fram í umræðunni gátum við, fátæk þjóð, á sínum tíma byggt Landspítala og við hljótum að skulda komandi kynslóðum það að gera það hér og nú.