144. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2014.

fjármögnun byggingar nýs Landspítala.

25. mál
[18:47]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég er komin hér til þess að lýsa stuðningi mínum við þessa þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir og reyndar allar aðrar góðar tillögur sem geta leitt til þess að losa Landspítalann úr þeirri pattstöðu sem hann er kominn í og veldur stjórnendum sjúkrahússins, starfsmönnum öllum, sjúklingum, aðstandendum og þeim nemum í heilbrigðisvísindum sem þar starfa, áhyggjum og erfiðleikum. Það er alveg rétt sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði fyrr í umræðunni í dag að það var vonin og vissan vil ég segja um vilja stjórnvalda í kjölfar hrunsins til þess að byggja nýjan spítala sem hélt starfsfólki spítalans gangandi í kjölfar hrunsins. Þrátt fyrir gríðarlegan niðurskurð, þrátt fyrir mikla erfiðleika, hélt starfsemi spítalans áfram. Ég hef sagt það áður að bankakerfið hrundi, efnahagskerfið hrundi og að vissu leyti má segja að hið pólitíska gamla kerfi hér hafi hrunið, þó að það sé nú að rísa upp á afturlappirnar aftur, en heilbrigðiskerfið stóð af sér hrunið. Það var ekki síst vegna þess að starfsmenn í heilbrigðisþjónustu stóðu vaktina og lögðu gríðarlega mikið á sig til þess tryggja öryggi sjúklinga fyrst og fremst.

Ég tel nauðsynlegt að leitað sé allra leiða til að koma spítalanum út úr þessari pattstöðu. Nefnd þingmanna úr öllum flokkum er ein slík leið, en ég legg áherslu á að slík nefnd vinni vel með þeim sem gerst þekkja til og hafa myndað sérstök samtök til þess að upplýsa um nauðsyn þessa, þ.e. samtökin Spítalinn okkar.

Það er rétt að margar leiðir eru mögulegar til þess að fjármagna nýja spítalabyggingu. Hér hefur verið nefnd einkafjármögnun með aðkomu lífeyrissjóðanna eins og var ákveðið með sérstökum samningum við lífeyrissjóðina á árinu 2010. Af því varð því miður ekki, en líka hefur verið bent á að venjuleg opinber framkvæmd er eðlilegasti framgangsmátinn. Það eru til peningar í þessu samfélagi. Þetta er spurning um vilja til þess að sækja þá. Það er hægt að gera það með ýmsu móti, með sérstakri skattheimtu eins og hér hefur verið bent á, með eyrnamerkingu sérstakra skattstofna á fjárlögum, eða með útgáfu sérstaks flokks spariskírteina ríkissjóðs.

Mönnum hefur á síðustu mínútum orðið tíðrætt um sölu eigna. Um það vil ég bara segja: Það er ekki hægt að selja Símann aftur. Það verður að segjast eins og er að ég treysti ekki stjórnarflokkunum, þeim sem á sínum tíma seldu Símann til að byggja nýjan Landspítala, til að selja samfélagslegar eignir okkar í þessum tilgangi eða öðrum. Við höfum alveg efni á því að byggja nýjan Landspítala.

Herra forseti. Þetta er mjög arðbært verkefni eins og hér hefur verið bent á og það kostar 3 milljarða kr. á ári að gera ekki neitt. Aukinn rekstrarkostnaður spítalans á ári hverju vegna þess óhagræðis sem er af því að reka hann á 17 stöðum eins og hér hefur verið dregið fram, ég þarf ekki að endurtaka það, kostar okkur 3 milljarða kr. á ári. Það er ansi dýrt spaug. Það er rétt sem hv. þm. Björt Ólafsdóttir sagði hér í dag: Það er dýrt að vera fátækur þegar svona er.

Ef ríkisstjórnarflokkarnir treysta sér ekki til þess að fjármagna bygginguna með einhverjum af þeim háttum sem ég hef hér nefnt og aðrir sé ég enga goðgá í því að tekið sé lán vegna þess að þetta er arðbær framkvæmd.

Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu, herra forseti. Það er ástæðulaust að endurtaka það sem stendur í þessari ágætu greinargerð og í greinargerð með öðrum málum sem hér liggja fyrir eins og frá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni og fleirum. Það sem ég vil segja að lokum er að það hefur í rauninni myndast ákveðin samstaða. Loksins hafa augu manna almennt opnast fyrir því að það þarf að reisa nýjan spítala. Það er það sem vantar til þess að heilbrigðiskerfi okkar, heilbrigðisþjónustan, geti þróast áfram og við getum tryggt öryggi sjúklinga. Við megum ekki láta vonleysi vegna þess að menn hér draga lappirnar taka við af þeirri þrautseigju og þeim krafti sem hefur einkennt baráttuna fyrir byggingu nýs spítala. Þar fara fremstir í flokki þeir sem gerst vita sem málið brennur á eigin skinni. Það er ekkert grín að loka smitsjúkdómadeild á Landspítalanum í þriðja skipti á þessu ári vegna MÓSA-sýkingar og moka út fólki og hætta að taka inn nýja sjúklinga. Við verðum að koma í veg fyrir að það verði daglegt brauð. Það verður aðeins gert með því að leita leiða til þess að fjármagna byggingu á nýjum spítala núna þegar ég vil fullyrða að samstaða er loksins orðin um þörfina fyrir nýjan spítala.