144. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2014.

aðgerðaáætlun til að efla fjarheilbrigðisþjónustu.

27. mál
[19:12]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég kem hingað undir heitinu andsvar til að þakka fyrir þessa þingsályktunartillögu og hefði sjálfur gjarnan viljað vera með á tillögunni. Ég held að hún sé góð viðbót í umræðuna. Við erum ekki að tala um að verið sé að leysa málin með einhverjum nýjum hætti í staðinn fyrir það sem er, heldur að bregðast við því að auka þarf sérhæfingu á mörgum svæðum sem við ráðum ekki við að staðsetja sérfræðinga eða búnað á um allt land og þá væri hægt að leysa það að hluta til með því.

Mig langar að vekja athygli á nokkrum atriðum. Í fyrsta lagi erum við komin mjög langt í myndgreiningu þar sem menn lesa úr myndum og röntgenmyndum þvers og kruss um landið, þ.e. hægt er að taka myndir og vera með myndgreiningartæki víða um landið en síðan lesa Landspítalinn eða Domus Medica úr og leiðbeina.

Kannski má líka spyrja hv. þingmann hvort flokka megi rafrænu sjúkraskrána, sem er í rauninni búið að koma lagaumgjörð um en við ekki haft efni á að koma á fæturna í sambandi við fjarheilbrigðisþjónustu eða þjónustu með stafrænum hætti. Einnig má kannski benda á, sem er einn af flöskuhálsunum varðandi þessa þjónustu, að á nokkrum stöðum á landinu er netsambandið ekki með þeim hætti að hægt sé að vinna þetta eins og maður hefði viljað. Ég hef séð fyrir mér og hafði um það draum sem ráðherra á sínum tíma að til dæmis Grímsey væri í því sama sambandi og verið er að lýsa á Kirkjubæjarklaustri með fyrirmynd frá Grænlandi. Þangað kemur læknir vikulega, ef hægt er því að stundum er ófært en þá væri hægt að sinna ýmsu á hinum dögunum með þeim tækjabúnaði sem hér er verið að tala um og er þekkt, ef ég kann rétt, undir nafninu „Pipaluk“ frá Grænlandi.

Fyrst og fremst er ég kominn hingað til að fagna tillögunni. Hún er gott innlegg inn í umræðuna um hvernig við getum bætt heilbrigðiskerfið. Ég held að mikilvægt sé að menn setjist niður og reyni að gera aðgerðaáætlun um hvernig við getum forgangsraðað og sett þetta líka inn samhliða annarri bættri þjónustu.