144. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2014.

aðgerðaáætlun til að efla fjarheilbrigðisþjónustu.

27. mál
[19:16]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fram kemur í greinargerðinni með þingsályktunartillögunni að í raun er ótrúlegt hvað sumir læknar eru að gera í sambandi við samskipti við sjúklinga. Þeir nota símann, veita aðgang að síma til dæmis eftir skurðaðgerðir, jafnvel allan sólarhringinn og þótt þeir séu í fríum. Það er þjónusta sem lítið er tekið eftir en er alveg ótrúlega góð.

Það var líka forvitnilegt að sjá hvað til dæmis Danirnir, þegar maður fékk tækifæri til að skoða það, hafa verið að þróa með þessari nútímatækni í eftirfylgni með sjúkdómum. Líka þar sem sjúklingar þurftu að vera í eftirliti varðandi blóðþrýsting, sykursýkismælingar eða hvað það nú var, þá gat jafnvel heimilistölvan dugað og menn hittust á Skype kannski í tvær mínútur daglega eða að upplýsingar voru hreinlega sendar á milli í gegnum tölvu og læknar brugðust þá við ef eitthvað brá út af í sambandi við heilbrigði sjúklingsins, hann mældi sig sem sagt sjálfur.

Þessi þróun á örugglega eftir að verða víðar og sparar að menn séu að keyra á milli staða, eins og hér hefur komið fram, sem er kannski einn veigamesti þátturinn í þessu, að menn þurfi ekki að fara af stað og keyra jafnvel landshluta á milli eða fljúga til að fara í einfalda eftirfylgni eða skoðun. Það væri þá að minnsta kosti hægt að minnka það.

Ég ítreka að ég fagna tillögunni. Hún fær vonandi vandaða umfjöllun í velferðarnefnd og ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka það frumkvæði að koma með hana hér fram.