144. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2014.

aðgerðaáætlun til að efla fjarheilbrigðisþjónustu.

27. mál
[19:24]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þetta er prýðileg þingsályktunartillaga sem við ræðum hér. Ég er stoltur af því að vera einn af meðflutningsmönnum og þakklátur fyrir að hafa fengið færi á því. Mig langar að benda á eitt sem ég tel að verði lykilatriði í því að gera heilbrigðisþjónustu og sambærilega þjónustu raunhæfa fyrir þorra landsmanna, það er að efla nettengingar úti um allt land.

Mig langar að benda sérstaklega eitt vandamál sem víða er til staðar. Á ákveðnum svæðum þar sem býr ekki endilega margt fólk en eitthvað af fólki þó, er það metið svo að einkafyrirtæki geti veitt þjónustuna. En síðan stendur einkafyrirtækið sig ekki og þá getur ríkið ekki gripið inn í og byggt innviðina upp sjálft vegna þess að þá væri það í samkeppni við einkaaðila.

Þetta kemur oft upp þegar fram koma hugmyndir um nýtingu internetsins á landsbyggðinni. Þetta er eitthvað sem við þurfum að leysa sjálfstætt en ég býst fastlega við því að þetta komi upp við gerð aðgerðaáætlunarinnar sem þessi þingsályktunartillaga mælir fyrir um. Þetta er eitt af þeim mörgu málum sem koma reglulega fram sem valda því að nauðsynlegt er að vekja máls á þessum vanda. Nettengingar víða um land eru einfaldlega of lélegar, of óstöðugar, of hægvirkar o.s.frv. Það er eitthvað sem ég held við ættum að líta á sem forgangsverkefni þegar kemur að landsbyggðinni, hvort sem um er að ræða heilbrigðisþjónustu eða atvinnuuppbyggingu eða bara einföld samskipti.

Nettenging er einn af burðarstólpum framfara í nútímasamfélagi og án hennar getur fólk ekki tekið þátt í þeirri þróun, sem er afskaplega sorglegt, sérstaklega vegna þess að það getur að mörgu öðru leyti verið svo gott að búa úti á landi.

Mér finnst alltaf rétt að benda á þetta þegar slík málefni koma til umræðu en að öðru leyti fagna ég tillögunni og hlakka til að sjá hvernig fer í nefndinni.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.