144. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2014.

raforkustrengur til Evrópu.

[10:39]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég verð að lýsa mig algjörlega ósammála hv. þingmanni. Það er verið að vinna þetta mál mjög vel, ég leyfi mér að fullyrða það. Það er rangt sem fram kemur hjá þingmanninum, að við höfum ekki verið að vinna í málinu og að ekkert hafi gerst í því. Það er rangt.

Hvað könnunarviðræðurnar um breska ívilnunarkerfið sem hv. þingmaður nefndi og kom fram í skýrslu ráðgjafarhópsins hefur það gerst í millitíðinni, og hv. þingmaður ætti kannski að kynna sér málið betur, að bresk yfirvöld hafa klárað þá lagasetningu. Eftir því sem við komumst næst er ekkert því til fyrirstöðu að Ísland geti verið þar undir.

Það er algjör óþarfi að fara í viðræður um eitthvað sem er löngu ákveðið. Nú bið ég hv. þingmann að slaka aðeins á, koma með okkur í það verkefni að afla okkur upplýsinga og þekkingar á því hvort þetta sé eitthvað sem við teljum okkur hagkvæmt og hvaða afleiðingar þetta hefur fyrir annað, fyrir iðnað, umhverfið og alla þá aðila (Forseti hringir.) sem að þessu koma. Síðan skulum við í sameiningu taka ákvörðun um það (Forseti hringir.) hvort af þessu verður eða ekki.