144. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2014.

dómur Mannréttindadómstólsins í máli blaðamanns.

[10:49]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður bendir á að þeir dómar sem vísað er til vekja ýmsar spurningar, spurningar sem ég held að við þurfum aðeins að fara yfir og átta okkur á og velta fyrir okkur. Í röksemdunum koma líka fram ákveðnir hlutir sem ég held að við þurfum sem samfélag að fara yfir.

Það lýtur auðvitað að lögum um fjölmiðla, fjölmiðlalöggjöfinni sem er í landinu, við þurfum einhvern veginn að rýna það og fara yfir það. Það heyrir reyndar ekki undir mig sem ráðherra en ég held samt sem áður að við þurfum að ræða það enda vekja þessir dómar upp ákveðnar spurningar sem við þurfum að rýna.

Íslenska ríkið brást reyndar við með ákveðnum hætti eftir fyrri dóminn. Ég er ekki með nákvæmar upplýsingar um hvernig það var en það var gert. En við þurfum að mínu mati miklu lengri umræðu en við getum tekið okkar á milli í fyrirspurnum á þingi til að fara yfir það hvort það er eitthvað í íslenskri löggjöf sem stangast á við eða er ekki í fullu samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar okkar eða alþjóðleg lög. Við getum sannarlega ekki, ég er sammála hv. þingmanni um það, litið fram hjá því að nú hefur þetta gerst í tvígang og það er eitthvað sem við verðum að rýna. En það heyrir að stærstu leyti undir fjölmiðlalöggjöfina.