144. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2014.

kostnaður vegna gjaldþrotaskipta.

[10:58]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. 7. liður þingsályktunar sem samþykkt var í júní 2013 um aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Kannað verði hvernig eignalausum einstaklingum verði gert kleift að greiða kostnað vegna gjaldþrotaskipta á búi sínu. Tillögur liggi fyrir í september 2013.“

Það dróst að vísu nokkuð að frumvarp um þetta efni kæmi fram en það var loks samþykkt í janúar 2014 og tók gildi 1. febrúar. Í lok ágúst höfðu 293 umsóknir borist og 79% þeirra, eða 231, höfðu verið afgreidd. Það er hins vegar eftirtektarvert að einungis 41% umsóknanna var samþykkt og 59% var hafnað. Ástæðan fyrir því er sú að í meira en helmingi umsóknanna taldi umboðsmaður umsækjendur geta notað önnur úrræði.

Nú hélt ég að það væri almennt samkomulag um að gjaldþrot væri síðasta úrræði fólks og það færi ekki í það nema það sæi ekki út úr skuldaklafanum. Mig langar því að spyrja hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra hvort hún deili áhyggjum mínum af því hversu litlum hluta þeirra sem vilja fara þessa leiðu leið úrræðið hefur gagnast. Jafnframt langar mig að spyrja ráðherrann um reglugerð sem átti að setja um þessi lög og þessa afgreiðslu og m.a. um málsmeðferð umboðsmanns skuldara og mat á fjárhagsstöðu umsækjanda: Hvers vegna hefur reglugerðin ekki verið sett?