144. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2014.

visthönnun vöru sem notar orku.

98. mál
[11:12]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Þorsteinn Sæmundsson) (F):

Hæstv. forseti. Mig langar að gera grein fyrir nefndaráliti atvinnuveganefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 42/2009, um visthönnun vöru sem notar orku, með síðari breytingum (innleiðing tilskipunar og viðurlagaákvæði).

Í meðförum nefndarinnar fengum við til okkar gesti og eftir að hafa gaumgæft það sem fram kom í máli þeirra var gerð breyting á þessu frumvarpi sem hér segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Lagt er til að gildissvið laganna verði útvíkkað þannig að þau eigi við um vörur sem tengjast orkunotkun í stað þess að ná aðeins til vara sem nota orku. Vörur sem tengjast orkunotkun eru t.d. gluggar, einangrunarefni og vörur ætlaðar fyrir vatnsnotkun. Hins vegar er einnig lagt til að farþega- og vöruflutningar verði undanskildir lögunum og að heiti laganna breytist þannig að það verði lög um visthönnun vöru sem tengist orkunotkun.“

Breytingin sem nefndin lagði til er sú að eftirlit samkvæmt lögunum verði í höndum Mannvirkjastofnunar en ekki Neytendastofu. Það hangir meðal annars á því að í sjálfu sér var þetta atriði það eina sem eftir sat hjá Neytendastofu sem varðaði eftirlit með rafföngum.

Það var álit nefndarinnar að Mannvirkjastofnun byggi yfir meiri þekkingu og betri aðstöðu til þess að fylgja þessu eftirliti eftir og einnig taldi nefndin að það væri til mikilla bóta fyrir viðskiptavini, þ.e. þá sem þetta snertir, að einn aðili sinnti eftirlitinu, að þar væru ekki á ferðinni fulltrúar tveggja ríkisstofnana hvor á eftir öðrum, annar að skoða ein rafföng og hinn önnur. Að því leyti til var þetta fellt undir Mannvirkjastofnun. Nefndin álítur að það muni spara ríkissjóði örfáar milljónir á ári.

Í stuttu máli leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.