144. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2014.

visthönnun vöru sem notar orku.

98. mál
[11:15]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Ég vil vekja athygli forseta á því að stýrihópur um IMMI-verkefnið hefur ekki fundað síðan snemma í vor. Ráðherra fullyrti í vor að skýrsla hópsins um ærumeiðingar ættu að fara í kynningu í júní en skýrslan hefur hvergi sést og ekki verið kynnt.

Nauðsynlegt er að fá upplýsingar um örlög stýrihópsins en ljóst er að margir bíða eftir því að stýrihópurinn ljúki ákveðnum forgangsverkefnum sem hæstv. ráðherra skilgreindi sjálfur í svari sínu. Þau eru afnám refsingar vegna ærumeiðinga og breyting á stjórnsýslulögum sem eiga meðal annars að auðvelda opinberum starfsmönnum að upplýsa um lögbrot og aðra ámælisverða háttsemi hjá stjórnvöldum.

Frumvarpið var á þingmálaskrá stjórnarinnar fyrir 143. þing en hefur nú dottið út af þingmálaskránni. Í svari ráðherra við fyrirspurn minni frá því í vor kemur fram að ráðherra hyggist upplýsa nánar um framfylgd IMMI-verkefnisins nú í haust og ég fer fram á að forseti þingsins beiti sér fyrir því tafarlaust að ráðherra upplýsi þingið um málið, enda ber honum skylda til að gera það á þriggja mánaða fresti samkvæmt ályktun þingsins um málið, en við það hefur sitjandi ráðherra aldrei staðið.