144. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2014.

visthönnun vöru sem notar orku.

98. mál
[11:24]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta þótti mér mjög vænt um að hæstv. forseti leiðrétti.

Mig langar aðeins að koma í andsvar við hv. þingmann og skýra þessa sektarupphæð. Nú get ég ekki, þar sem ég á ekki sæti í hv. atvinnuveganefnd, fjallað um það hvort nefndin hafði þetta atriði til skoðunar eða ekki, en ég get útskýrt hvað fyrir okkur vakti þegar þetta ákvæði var skrifað inn í lögin. Það er einfaldlega þannig að þessi upphæð er til samræmis við önnur sektarákvæði sem varða svipuð mál og Mannvirkjastofnun hefur undir höndum.

Ég get líka upplýst að ákvæðinu hefur verið breytt. Áður var þetta eftirlit í höndum lögreglu og okkur þótti það nú ansi dramatískt þannig að það var fært til Mannvirkjastofnunar. Sektarákvæðinu hefur aldrei verið beitt og ef menn telja það of hátt hvet ég nefndina eða einstaka þingmenn til að skoða það.

Það er alveg rétt sem hér hefur komið fram, við erum í öfundsverðri stöðu hvað varðar orku, hreina og sjálfbæra orku, og eigum nóg af henni. En það kemur samt ekki í veg fyrir að við gerum það sem við getum og eigum að leggja okkur fram um að nýta orkuna sem allra best vegna þess að þá getum við nýtt hana til annarra hluta. Ég legg því áherslu á að þetta mál, þó svo að við séum í öfundsverðri stöðu, er skynsamlegt og felur í sér það að við nýtum orkuna okkar betur.