144. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2014.

visthönnun vöru sem notar orku.

98. mál
[11:28]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Þorsteinn Sæmundsson) (F):

Hæstv. forseti. Fyrst af öllu vil ég biðjast velvirðingar á því að hafa þurft að stökkva úr þingsal meðan á þessu stóð en ég ætla að hugga minn góða kollega, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, með því að sektarákvæði þessa frumvarps er ekki evrópskt, það er alíslenskt. Það er því ekki verið að taka það upp úr smiðju Evrópusambandsins. Eins og hæstv. ráðherra benti á þá eru sambærileg sektarákvæði í sambærilegum málum.

Nú ætla ég að benda þessum tveimur ágætu hv. þingmönnum á að lágmarkssekt samkvæmt þessum lögum er 0 kr. Það kemur fram í greinargerð með frumvarpinu að sektarákvörðun skuli á hverjum tíma falla að ákvæðum stjórnsýslulaga um meðalhóf. Ef menn halda að fara eigi að sekta menn um 500 þús. kr. á dag fyrir að einangra ekki einn glugga þá hafa menn meira hugmyndaflug en ég.

Þegar eftirlit og framkvæmd þessa verks var falið Mannvirkjastofnun þá skal sá sem hér stendur viðurkenna það fúslega að hann ber fyllsta traust til starfsmanna Mannvirkjastofnunar og stjórnenda þeirrar stofnunar til að umgangast þetta mál af þeirri natni og varúð sem þeir umgangast öll mál sem þeim eru falin.

Ég hef ekki hugmyndaflug til að ímynda mér að menn fari að beita sektarákvæðum upp á 500 þús. kr. út af einum glugga sem er ekki einangraður í samræmi við þessi lög.

Það er hins vegar annar vinkill á þessu máli. Menn segja: Við höfum nóga orku og getum þess vegna leyft okkur að einangra minna. Ég er algerlega ósammála þessari fullyrðingu. (ÖS: Ég sagði það ekki.) — Nei, ég veit það, en það kom fram hér í umræðunni. Ég er algerlega ósammála þeirri fullyrðingu vegna þess að sú staðreynd að við búum yfir ódýrri orku veitir okkur ekki bessaleyfi til þess að umgangast hana af léttúð. Við búum í köldu landi. Auðvitað eigum við að einangra. Auðvitað eigum við að spara orku. Við gætum t.d. notað afgangsorku til að kynda eina áburðarverksmiðju, eins og sá sem hér sendur hefur lagt til, þjóðinni til heilla og skapað útflutningstekjur.

Ég held að menn eigi að vera slakir yfir því að hámarkssektarupphæð sé þarna 500 þús. kr. vegna þess að ég hallast að því að hinir grandvöru embættismenn í Mannvirkjastofnun muni vera nær lágmarksupphæðinni sem er 0 kr.