144. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2014.

visthönnun vöru sem notar orku.

98. mál
[11:42]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Þorsteinn Sæmundsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér þykir leitt ef ég hef haft rangt eftir hv. þingmanni. Ég vil samt sem áður benda honum á það að orkuverð til húshitunar er ekki það sama alls staðar á Íslandi og einangrun sem borgar sig kannski ekki hér á þessu þrönga svæði sem við búum á getur vissulega borgað sig á köldum svæðum annars staðar á landinu.

Af hverju þingmaðurinn stakk ekki upp á því að þetta yrðu 5 milljónir, af nákvæmlega sömu ástæðu og ég sagði áðan, þ.e. að þessa upphæð, hámarksupphæð, 500.000, er að finna í lögum sem varða sambærileg málefni og þess vegna leituðu menn að því að hafa þetta með samræmdum hætti.

Ég sé hins vegar ekkert að því að taka þetta mál upp milli 2. og 3. umr. í nefndinni, það teljum við ekki eftir okkur og munum eflaust gera í ljósi þessarar umræðu áður en málið fer til 3. umr., hver svo sem úrslitin í því máli verða. En það þarf náttúrlega skoðun vegna þess að við viljum ekki að lækkun ákvæðisins hér skapi hættu á því eða skapi rök fyrir því að í öðrum lögum, sem kannski eru bitastæðari og mikilvægari, að það verði til þess að hámarksupphæð þar þurfi að lækka. Þetta þurfum við að skoða. En það er sjálfsagt að gaumgæfa þetta milli 2. og 3. umr.