144. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2014.

visthönnun vöru sem notar orku.

98. mál
[11:45]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna þeirri umræðu sem er í gangi og sérstaklega áhuga hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar á því að berjast gegn skrifræði og öðru sem kemur bæði frá Íslandi og frá Evrópusambandinu. Það er alltaf full ástæða til að velta því fyrir sér og skoða lagafrumvörp út frá þeim skrifræðisgleraugum, sektarákvæði og annað slíkt. Við horfum upp á að skrifræðið er að aukast gríðarlega og það er á mörgum sviðum farið að vinna svolítið gegn, vil ég segja, markmiðum sínum.

Hvað varðar málið sem við erum að tala um fagna ég því að nefndin ætlar að skoða það milli 2. og 3. umr. Það væri mjög fróðlegt að fá upplýsingar um það hér — en ef ekki að það yrði skoðað milli 2. og 3. umr. — að nefndin fengi til sín hagsmunaaðila, fengi til sín þá sem þessar dagsektir verða mögulega lagðar á, aðila sem vinna daglega með mál sem þessu tengjast, sem flytja inn vörur og annað því um líkt, hvort traust þeirra á Mannvirkjastofnun við að halda viðurlögunum lágum sé það sama eða hvort tilefni sé til að endurskoða þessa tölu.

Við getum líka skoðað önnur sambærileg lög og hvort ástæða sé til að skoða í framhaldinu hvort sektarákvæði annars staðar séu hugsanlega líka of há, varðandi aðra flokka, ég skal ekki dæma um það. Ég verð að segja, með fullri virðingu fyrir því góða fólki sem vinnur hjá Mannvirkjastofnun og öðrum stofnunum, að mín persónulega skoðun er sú að við eigum ekki að hafa opnar heimildir í of miklum mæli sem gera það að verkum að einstaklingar sem vinna hjá stofnunum fá svona mikil völd.

Ef við teljum eðlilegt að þetta sé hærri talan eigum við að hafa það þarna inni. Ef við teljum að sektarákvæðið eigi að vera lægra eigum við að hafa það lægra. Það á ekki að hafa áhrif á önnur lög, það á ekki að hafa áhrif á aðra þætti. Við erum að fjalla um þessi lög. Okkur ber engin skylda til að hafa sömu sektarákvæði í þeim og í einhverjum öðrum lögum. Við getum skoðað þessi lög út frá tilefninu hér og við erum í rauninni að segja í lögunum að undir einhverjum kringumstæðum geti verið eðlilegt að sektarákvæðið séu 500 þúsund, þannig les ég það alla vega.

Ég vil því hvetja nefndina til þess að skoða milli 2. og 3. umr. hvort ekki sé eðlilegt að kalla Mannvirkjastofnun til og fjalla sérstaklega um þetta atriði og þá aðila sem þessum sektarákvæðum verður mögulega beitt gegn. Hvað segja þeir um að sektarramminn sé 0–500 þúsund? Ég skal ekki segja, en ég hef þá trú að niðurstaða verði sú að menn telji eðlilegt að talan sé lægri. Þá vil ég að nefndin skoði það og velti fyrir sér fyrir 3. umr. hvort skynsamlegt sé að sektarákvæðin verði lækkuð.

Svo fagna ég því, eins og ég sagði í upphafi, að menn séu opnir fyrir því að vinna gegn skrifræði og öðru slíku, vegna þess að það er farið að vera mjög mikið á mörgum sviðum samfélagsins, ekki aðeins á því sem tengist Evrópusambandinu — og þá er enginn að tala gegn skrifræði almennt, enginn að tala gegn því að við höfum nákvæma skráningu og eftirlit og annað — og vinnur oft og tíðum gegn tilgangi sínum. Það er mín persónulega skoðun. Þess vegna ber okkur skylda til sem löggjafarvaldi að skoða þetta á hverjum tíma og það eigum við að gera með þetta mál eins og öll önnur. Ég fagna því að nefndin ætlar að skoða þetta milli 2. og 3. umr.