144. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2014.

visthönnun vöru sem notar orku.

98. mál
[11:58]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Þorsteinn Sæmundsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Ég ítreka það sem fram kom áðan að auðvitað er nefndin fús til þess að skoða málið milli 2. og 3. umr. Ég tel hins vegar að þær breytingar sem nefndin vann á frumvarpinu séu fullkomlega í anda samstarfssamnings ríkisstjórnarinnar að einfalda fyrirtækjum og einstaklingum lífið með því að einfalda reglur og reglusetningu, t.d. með því að færa þetta mál til Mannvirkjastofnunar en skilja það ekki eftir í annarri stofnun.

Ég kemst hins vegar ekki hjá því að spyrja hv. þingmann, af því að það kemur líka fram í greinargerð með frumvarpinu, að við sektarákvörðun skuli menn hafa í huga meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hann treysti embættismönnum í þjónustu ríkisins ekki til þess að virða þá meðalhófsreglu eða hvort hann telji að þeir séu almennt illa að sér um stjórnsýslulög.