144. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2014.

visthönnun vöru sem notar orku.

98. mál
[12:00]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að nefndin ætli að skoða þessi mál á milli 2. og 3. umr. Ég hygg að embættismenn séu almennt misvel að sér um meðalhófsreglu líkt og gengur og gerist annars staðar. Ég vil þó segja að ég dreg ekki í efa að Mannvirkjastofnun og embættismenn þar séu vel að sér þegar kemur að meðalhófsreglu stjórnarskrárinnar.

Hins vegar vil ég segja að ég hefði viljað, og ég hvet nefndina til þess, að á milli 2. og 3. umr. yrði spurningunni sem hv. þingmaður er að spyrja þann sem hér stendur, beint að hagsmunaaðilum eða þeim sem eiga hættu á því að þessar sektir verði lagðar á. Á þeim grunni verði skoðað hvort eðlilegt sé að þessi sektarákvæði verði eitthvað lægri. Ég ætla ekki að dæma sjálfur um það. Þetta er það sem ég hefði viljað að nefndin skoðaði milli 2. og 3. umr. og fagnaði svo mjög hér áðan að nefndin væri tilbúin til þess að gera. Það verður mjög fróðlegt að sjá hver niðurstaðan úr því verður þegar málið kemur til 3. umr.