144. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2014.

sala fasteigna og skipa.

208. mál
[12:03]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um sölu fasteigna og skipa á þskj. 234 í máli nr. 208. Markmiðið með frumvarpinu er að tryggja að viðskipti með fasteignir og skip fari fram með tryggum og öruggum hætti.

Fasteignaviðskipti eru oftar en ekki viðskipti með aleigu fólks og því nauðsynlegt að löggjafinn marki skýra en sanngjarna löggjöf í þeim efnum og þetta frumvarp er samið með það í huga. Jafnframt er markmið frumvarpsins að tryggja þeim sem telja á sér brotið í fasteignaviðskiptum hraða og vandaða málsmeðferð til þess að þeir geti fengið úrlausn sinna mála og verður nánar vikið að því á eftir.

Þetta frumvarp er endurflutt. Það hefur verið flutt á nokkrum þingum og var í upphafi samið af nefnd sem skipuð var í kjölfar nefndarstarfs árið 2007. Frumvarpið felur ekki í sér róttækar breytingar á núgildandi lögum, heldur eru ákvæði núgildandi laga, nr. 99/2004, uppistaða löggjafarinnar. Í frumvarpinu hafa ákvæði gildandi laga að meginstefnu verið fínpússuð og skýrð nánar og bætt við önnur án þess að efnisleg breyting eigi sér stað. Frumvarpið er því ekki kúvending á ríkjandi framkvæmd sem hefur gengið ágætlega. Tilgangur frumvarpsins er fyrst og síðast að gera lögin skýrari, auka úrræði neytenda og vernd þeirra.

Í frumvarpinu er þó að finna fjórar veigamiklar breytingar frá núgildandi lögum. Í fyrsta lagi er hert á reglum sem varða verktöku sölufulltrúa fasteignasala til að tryggja að fasteignasalar sinni sjálfir þeim störfum sem þeir hafa einkarétt til. Í annan stað hefur skylduaðild að Félagi fasteignasala verið afnumin. Í þriðja lagi er lagt til að afnema einkarétt fasteignasala til að hafa milligöngu við sölu fyrirtækja. Í fjórða lagi er eftirlitsnefnd fasteignasala falið að taka við kvörtunum neytenda og gefa álit. Verður nú vikið nánar að þessum atriðum.

Hvað varðar verktökuna er lagt til að fasteignasali megi ekki fela öðrum að vinna þau störf sem löggilding nær til, sbr. 1. mgr. 6. gr. frumvarpsins. Þó er lagt til að fasteignasölum verði heimilt að fela einstaklingum sem ráðnir eru til starfa hjá honum einstök afmörkuð verkefni sem verða nánar útfærð í reglugerð. Ástæða þessarar breytingar er sú að óljóst er hvaða verkefni fasteignasali má fela öðrum. Hér er ekki verið að koma í veg fyrir að fasteignasali geti látið starfsmenn vinna einföld verk. Með þessu er verið að leitast við að setja bönd á svokallaða verktöku sem nokkuð hefur verið gagnrýnd.

Jafnframt er tekið af skarið um að fasteignasali beri skaðabótaábyrgð á því tjóni sem valdið er af þeim sem starfa í þágu hans, óháð því hvort starfsmaður er ráðinn með verktakasamning eða ráðningarsamning, til að tryggja réttarstöðu neytenda.

Því næst er lagt til að skylduaðild að Félagi fasteignasala verði felld niður. Ein meginástæða þess að fasteignasalar voru skyldaðir með lögum til að vera aðilar að Félagi fasteignasala var að gefa félaginu tækifæri til þess að eflast að burðum og skapa sér þá stöðu að verða leiðandi hér á landi, eins og fram kemur í áliti allsherjarnefndar sem fylgdi frumvarpi núgildandi laga. Taldi nefndin að félagið kynni að styrkjast svo verulega í starfsemi sinni í framhaldi af lögfestingu að ekki yrði nauðsynlegt að kveða á um skylduaðild til frambúðar. Því var lagt til að það fyrirkomulag yrði tekið til sérstakrar skoðunar árið 2008 eftir fjögurra ára reynslu. Vinnuhópar þeir er unnu að endurskoðun gildandi laga hafa komist að þeirri niðurstöðu að ákvæðið hafi þjónað tilgangi sínum.

Þá hefur Hæstiréttur komist að þeirri niðurstöðu í máli nr. 144/2014 að skylduaðild að Félagi fasteignasala brjóti gegn 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrár Íslands.

Þá er lagt til að afnuminn verði einkaréttur fasteignasala til að hafa milligöngu um sölu fyrirtækja, eins og kveðið er á um í núgildandi lögum. Fasteignasalar geta þó sinnt slíkum störfum áfram þótt það falli ekki undir einkarétt þeirra. Vandséð er að menntun og reynsla fasteignasala veiti þeim meiri sérfræðiþekkingu til sölu atvinnufyrirtækja en öðrum, svo sem endurskoðendum og viðskiptafræðingum.

Að lokum er lagt til að auk eftirlits með fasteignasölum skuli eftirlitsnefnd fasteignasala taka við kvörtunum frá kaupendum og seljendum fasteigna telji þeir að fasteignasali hafi valdið sér tjóni. Þannig geti kaupendur og seljendur fasteigna borið undir eftirlitsnefndina ágreining um þóknun á skaðabótaskyldu og aflað álits hennar um ágreiningsefnið. Um er að ræða mikilvæga réttarbót í þágu neytanda þar sem kostnaður verður hóflegur og málsmeðferð stutt.

Hæstv. forseti. Ég tel að hér sé á ferðinni frumvarp sem muni stuðla að öruggari fasteignaviðskiptum og tryggja betur hag neytenda. Í frumvarpinu felast skynsamlegar breytingar og hógværar endurbætur sem taka mið af þeirri reynslu sem hefur skapast.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar til umfjöllunar.