144. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2014.

sala fasteigna og skipa.

208. mál
[12:13]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Það er spurning með skaðabótaábyrgðina, hvort hún breytist eitthvað frá því sem nú er, að það sé eitthvað slakað á vegna þess að afnema á einkaréttinn varðandi fasteignasölu og milligöngu um fasteignasölu.

Varðandi námið, hér kemur fram að lögð sé til breyting á fyrirkomulagi náms og prófa til löggildingar á störfum fasteignasala og gert ráð fyrir að háskólar sjái um námið og prófnefnd verði lögð niður en starfi þó til bráðabirgða til ársins 2019. Hvað þýðir þetta nákvæmlega? Er verið að slaka á kröfum miðað við núverandi námskröfur til þeirra sem hafa haft með þessi mál að gera hingað til og löggildingu til þess?

Svo kemur líka fram nokkuð sem ég vil gjarnan fá betri útskýringar á. Þeir sem geta kært til eftirlitsnefndar eiga sjálfir að greiða gjaldið. Hvað er gjaldið? Mun það draga úr því að fólk treysti sér til að kæra einhver viðskipti til eftirlitsnefndar vegna þess að gjaldið sé svo hátt? Það kemur svo sem ekki fram hvert gjaldið muni verða. Ég vildi gjarnan heyra frekar frá ráðherra varðandi þetta.