144. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2014.

sala fasteigna og skipa.

208. mál
[12:15]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi skaðabótaákvæðin þá leyfi ég mér að fullyrða að engin breyting er gerð þar á þannig að það er óbreytt. Spurt var um eftirlitsgjaldið og að kæranda sé gert að greiða það. Veigamesta breytingin eða ástæða þess að verið er að koma þessu til eftirlitsnefndarinnar er einmitt að tryggja fljótari og kostnaðarminni málsmeðferð. Ég verð að viðurkenna að ég er ekki alveg með á hreinu hversu hátt gjaldið er, en tilgangurinn með þessari breytingu er að bæta málsmeðferðina og gera hana ódýrari, fljótvirkari og betri. Það er heildarhugsunin að baki því.

Það er ekki verið að draga úr kröfum. Gerð er tillaga um að fjölga einingum úr 90 í 180 einingar sem þarf til þess að fá þessa löggildingu. Þetta er unnið núna með sérstakri prófnefnd. Nú er verið að færa þetta meira inn í háskólann, en það er ekki verið að draga úr kröfum eða slaka á þeim með neinum hætti.