144. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2014.

sala fasteigna og skipa.

208. mál
[12:16]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að þetta mál skuli vera komið fram einu sinni til viðbótar og ég hvet hv. þingmenn og þá nefnd sem tekur við málinu, hv. efnahags- og viðskiptanefnd, til að vinna málinu framgöngu á þessu þingi. Það hefur komið hérna fyrir alloft, búið að veltast margoft á milli.

Hér hefur mönnum orðið tíðrætt um fasteignasalana en mér er fyrst og fremst hugsað til neytendanna í málinu, þ.e. fasteignaeigenda, og þess skaða sem þeir kunna að verða fyrir í fasteignaviðskiptum. Það sem nefndin þarf að tryggja í störfum sínum fyrir neytendur er að fyrir fasteignaeigendur sem eru að gera þarna sín stærstu viðskipti í lífinu oft á tíðum — það er stærsta fjármálaákvörðun hvers einstaklings að kaupa sér fasteign, að minnsta kosti þegar fyrstu viðskipti fara fram — séu viðskiptin góð og með þeim hætti að báðir aðilar fari sáttir frá borði, bæði kaupandi og seljandi. Það er ekki síður ástæða til þess að verja seljanda en kaupanda í þessu máli, þannig að hér er um fullkomna neytendavernd að ræða.

Ég veit ekki hvort ég er alveg sammála hæstv. ráðherra um skaðabótaábyrgðina. Mér finnst að á ýmsum sviðum sé í raun verið að herða skaðabótaábyrgð fasteignasala og auka neytendavernd þar. Það er kannski að einhverju leyti opið gagnvart ráðuneytinu með reglugerð og eins hvað felst í þeirri ábyrgðaryfirlýsingu sem gefin er út af tryggingafélagi, en ég ætla rétt að vona að það sé heldur til að bæta neytendaverndina, bæta og herða á skaðabótaábyrgðinni. Þannig að enn og aftur er mér hugsað til neytendaverndar.

Það þýðir ekki að ræða skylduaðild, það var í tísku um og eftir síðustu aldamót að aðilar og samtök aðila í viðskiptum gætu haft eftirlit með sjálfum sér, en með skylduaðildinni sem hefur verið dæmd að gangi ekki upp í þessum efnum fellur það brott. Eftirlitsnefnd fasteignasala er eins konar stjórnsýsludómstóll sem á að geta afgreitt mál hratt og vel og ég trúi því og treysti að gjaldið til þess að nefndin fjalli um málið verði ekki það hátt að það skipti sköpum fyrir kæranda, enda skjóta menn ekki máli til eftirlitsnefndar bara að gamni sínu. Hins vegar tel ég að eftirlitsnefndin eigi að hafa ákveðið frumkvæði, hafi frumkvæðisskyldu þegar ranglega er staðið að málum. Hér er meira að segja vísað til þess að eftirlitsnefndin skuli óska eftir því og fara þess á leit við sýslumann að starfsstöð þess sem starfar án réttinda verði lokað.

Varðandi fjárræðissviptingu, gjaldþrot fasteignasala, held ég að þetta sé nokkurn veginn í samræmi við þá venju sem helgast af fyrirgefningu og uppgjöf saka eftir ákveðinn tíma þegar fólk hefur fengið forræði á búi sínu. Það er þekkt að lögmenn hafi verið sviptir réttindum og fengið þau aftur, þannig að þetta er nokkurn veginn í samræmi við það.

Í svona máli eru tveir hagsmunaaðilar, skulum við segja, fasteignasalinn sjálfur, þetta er atvinna hans, en það eru líka neytendurnir. Ég trúi því og treysti að við nefndarmenn í hv. efnahags- og viðskiptanefnd vinnum okkar vinnu og ræðum við þessa aðila og að neytendur verði betur settir eftir en áður. Þá stendur eftir fyrirtækjasalan og hugsanlega þarf að huga að einhverri umgjörð um fyrirtækjasölu, en það er kannski annar handleggur og komið út af þessu borði hér og ég ætla ekki að ræða frekar.

Virðulegi forseti. Ég vona það að okkur auðnist að koma þessu máli í gegn. Ég hef lokið máli mínu.