144. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2014.

ríkisendurskoðandi og endurskoðun ríkisreikninga.

307. mál
[12:48]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka svarið.

Nú held ég reyndar að það sé þannig að líklegt væri að löggiltur endurskoðandi mundi vera meðal hæfustu umsækjenda, maður sér það alveg gerast. Það sem ég velti fyrir mér er að ef hæfustu löggiltu endurskoðendurnir sækja ekki um en hæfir hagfræðingar, lögfræðingar eða aðrir stjórnsýslufræðingar, þá fyndist mér ekki gott að ganga fram hjá mjög hæfu fólki vegna þess að um sækir löggiltur endurskoðandi sem ekki er hæfari, svo ég reyni að orða það þannig.

Ég mundi líka vilja fá — það snýr kannski ekki að hv. þingmanni — rök þeirra stofnana á Norðurlöndum og í Evrópu sem telja ekki þörf á þessu skilyrði. Það eru einhver rök fyrir því að Danmörk, Noregur, Svíþjóð, Finnland og lönd í Vestur-Evrópu segja: Við ætlum ekki að gera þá kröfu að ríkisendurskoðandi, sá sem er yfirmaður þessarar stofnunar, sé endilega löggiltur endurskoðandi. Væntanlega er það ekki bara tilviljun ein. Menn hljóta að hafa velt því fyrir sér. Það snýr náttúrlega ekki að hv. þingmanni, en mér þætti fróðlegt að heyra þau rök við tækifæri.