144. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2014.

fjárhagsstaða RÚV.

[14:17]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka málshefjanda fyrir að taka þessa umræðu hér upp. Ég tek undir með þeim sem hafa talað um fjárhagsvanda Ríkisútvarpsins og að hann sé ekki nýtilkominn. Sá sem hér stendur er tilbúinn til að skoða þær leiðir sem þarf til að leysa fjárhagsvanda RÚV, m.a. eins og hv. þm. Brynhildur Pétursdóttir kom inn á að skoða möguleika sem varða húsnæðiskost Ríkisútvarpsins. Það þarf að taka á fjárhagsvanda Ríkisútvarpsins til frambúðar.

Síðan vil ég aðeins koma inn á það sem hér hefur verið rætt en það er hlutverk Ríkisútvarpsins. Framsóknarflokkurinn hefur alltaf viljað verja Ríkisútvarpið, standa með Ríkisútvarpinu og við teljum Ríkisútvarpið mjög mikilvægan fjölmiðil. (Gripið fram í.) Ríkisútvarpið þjónar almannaþjónustuhlutverki og menningarlegu hlutverki og það á að reka hlutlausan fréttamiðil. Öll þessi þrjú atriði eru gríðarlega mikilvæg.

Fréttastofa. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að hér sé fréttastofa sem við getum treyst að sé hlutlaus, henni sé ekki stýrt af pólitík, ekki stýrt af atvinnulífi, ekki stýrt af einu eða neinu. Vegna eignarhalds annarra fjölmiðla getum við ekki treyst því að þar sé gætt hlutleysis í umfjöllun.

Ég verð að segja hvað þessa þrjá þætti snertir að þegar maður fer um og hittir fólk, bæði framsóknarmenn, aðra íbúa og í mínu kjördæmi úti á landi, hef ég áhyggjur af því að neikvæðni gagnvart Ríkisútvarpinu hefur vaxið mjög mikið. Ég hef fundið fyrir því og ekki bara á síðasta ári heldur undanförnum árum. Ef Ríkisútvarpið ætlar að halda þeirri stöðu sem er svo mikilvægt að það hafi er ekki nóg að taka bara á fjárhagsvandanum; stjórnendur Ríkisútvarpsins, starfsfólk Ríkisútvarpsins og aðrir verða líka (Forseti hringir.) að hlusta aðeins á þessa gagnrýni og vera tilbúnir til að skoða hvernig er hægt að bregðast við. Annars mun Ríkisútvarpið (Forseti hringir.) ekki halda þeirri stöðu sem það hefur haft í áratugi meðal þjóðarinnar.