144. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2014.

fjárhagsstaða RÚV.

[14:22]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu. Það er mikilvægt að halda áfram að ræða Ríkisútvarpið svo að finna megi langtímalausn og skapa frið um þessa mikilvægu stofnun í samfélaginu.

Í fyrra ræddum við ágætlega ritskoðunarviðleitni stjórnarflokkanna, tilburði til að hóta RÚV með lækkun framlaga, umfjöllun sem ég ætla að vona að við þurfum ekki að eiga oft hér í þessu þingi.

Við ræddum líka, sem ég vil halda til haga og er mikilvægt að ræða í þessu samhengi, því að við erum að ræða um fjármál stofnunarinnar, þann blekkingaleik ríkisstjórnarinnar sem talar um lækkun skatta en seilist um leið dýpra og dýpra í vasa skattgreiðenda með nefsköttum eða álögum fyrir þjónustu.

Gott dæmi um það er útvarpsgjaldið sem hækkað var á þessu ári á sama tíma og það var ekki látið renna til Ríkisútvarpsins.

RÚV er sá fjölmiðill í landinu sem hefur ítrekað mælst sá miðill sem fólkið treystir best, ekki hvað síst fréttunum. Það er gríðarlega mikilvægt að þessum fjölmiðli sé stýrt vel og hann sinni sínu hlutverki. Það má aldrei, þegar menn tala eins og hæstv. ráðherra hér, tala um að það sé mikilvægt að ganga frá markmiðum hans í gegnum þjónustusamning. Það er jafn mikilvægt að fylgja lögunum sem við höfum sem fela í sér mjög víðtækt hlutverk RÚV. Hlutverk Ríkisútvarpsins, eins og hér hefur komið fram, er bæði menntandi, fræðandi og líka skemmtanahlutverk, auk þess að vera með öfluga fréttastofu.

Eitt af því sem Ríkisútvarpið hefur til dæmis núna lýst áhuga á að gera, og ég veit ekki annað en að hæstv. ráðherra hafi stutt það, er að reyna að styrkja landsbyggðarhlutverkið. Það kostar líka peninga.

Við þurfum að komast út úr þessari pattstöðu. Mig langar aðeins í lokin að spyrja hæstv. ráðherra, af því að hann náði ekki að svara mér í morgun í allsherjar- og menntamálanefnd, hvað það þýði í fjárlagafrumvarpinu sem þar stendur á bls. 298, með leyfi forseta:

„Fjárhagsstaða stofnunarinnar verður til frekari skoðunar í haust í ljósi breyttra áætlana og forsendna.“

Hvaða áætlanabreytingar eru í gangi í ráðuneytinu? Hvað er í undirbúningi? (Forseti hringir.) Hvaða forsendur hafa breyst? Ætla menn að styrkja stofnunina eða ætla menn að draga meira úr hlutverki hennar?