144. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2014.

fjárhagsstaða RÚV.

[14:32]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Sem fulltrúi þess flokks sem átti drýgstan þátt í að koma þessari stofnun á ber maður náttúrlega áhyggjur í brjósti yfir stöðu hennar í dag. Þegar svo er komið að stofnunin sinnir ekki nauðsynlegu öryggishlutverki sínu, virðist ekki hafa möguleika á því að standa undir menningarhlutverkinu sínu, þ.e. að varðveita minjar o.s.frv., þegar svo er komið að hlutleysi stofnunarinnar er ekki eins og áður var, hlýtur maður að staldra við og velta því fyrir sér hvað sé til ráða. Þessir fjórir þættir eru nauðsynlegir í því efni ef Ríkisútvarpið á yfirleitt að starfa áfram.

Það er hins vegar annað sem hefur valdið mér áhyggjum upp á síðkastið, þegar fréttir hafa borist af þeim rekstrarvanda sem stofnunin eða félagið glímir við, og það er að þær aðhaldsaðgerðir sem gripið var til á síðasta ári virðast ekki hafa dugað. Ég drap á það í ræðu um daginn að það væri kannski ekki skrýtið vegna þess til dæmis að þegar nýr útvarpsstjóri kom til starfa setti hann á tíu manna framkvæmdastjórn en í stað þess að fækka þar réð hann þegar í stað tíu manna framkvæmdastjórn aftur. Þetta kostar 150 milljónir á ári í launum og launatengdum gjöldum. Ég held að niðurskurður stofnunarinnar hafi verið í öfuga átt undanfarið.

Í fyrra var sagt upp fjölda starfsfólks af miklum fautaskap. Það fólk rataði sumt aftur inn bakdyramegin sem verktakar, í staðinn fyrir að skera ofan frá og niður. Ég held að það sé nauðsynlegt, eins og aðrir hafa komið inn á, að finna farveg til að Ríkisútvarpið njóti trausts til framtíðar og unninn sé bugur á þeim rekstrarvanda sem það glímir við.

Að lokum vil ég þakka fyrir umræðuna, þakka þeim (Forseti hringir.) sem kom henni á fót.