144. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2014.

fjárhagsstaða RÚV.

[14:34]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Ríkisútvarpið getur hreinlega ekki sinnt sinni lögbundnu skyldu að standa fyrir lýðræðislegri umræðu með réttmætri gagnrýni, m.a. á stjórnvöld, þegar niðurskurðarhnífur stjórnvalda hangir yfir útvarpinu, þegar stjórnvöld skipa meiri hlutann í stjórn Ríkisútvarpsins sem ræður síðan útvarpsstjóra sem hefur yfirumsjón með öllum öðrum starfsmönnum. Það getur hreinlega ekki verið óháð, það er ekki óháð.

Í lögum um Ríkisútvarpið segir, með leyfi forseta:

„Markmið laga þessara er að stuðla að lýðræðislegri umræðu“ o.s.frv.

Aftur, með leyfi forseta, í 2. gr.:

„Ríkisútvarpið er sjálfstætt opinbert hlutafélag í eigu íslenska ríkisins.“

Nei, það er það ekki, það er ekki sjálfstætt. Og ef við færum okkur neðar — hlutverk og skyldur — kemur fram í 3. gr., 6. lið:

„Í starfsháttum sínum skal Ríkisútvarpið: […]

6. Stunda vandaða og gagnrýna fréttamennsku og rýna m.a. störf yfirvalda“ o.s.frv.

RÚV getur ekki gert þetta ef fjárveitingaheimildirnar, markaðar tekjur, útvarpsgjaldið, renna ekki til þess, ef stjórnvöld geta á hverjum tíma ákveðið hvort og hve mikið rennur til reksturs útvarpsins. Það getur hreinlega ekki verið sjálfstætt. Þetta er ekki svona annars staðar í Evrópu. Við erum Evrópumeistarar í þessu. Annars staðar er fest til ákveðinna fjölda ára hvernig þetta er og ekki megi taka það upp nema það sé niðurskurður yfir alla línuna, allar aðrar stofnanir. Þetta er það landið sem gengur örlítið lengra en á Íslandi en samt miklu skemur en annars staðar í Evrópu.

Þessi fjölmiðill er ekki sjálfstæður í dag og hann verður það ekki nema þessu sé breytt.