144. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2014.

fjárhagsstaða RÚV.

[14:36]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka umræðuna hér í lok hennar. Ég ætlaði að þakka fyrir þá miklu samstöðu sem ég varð áskynja í fyrri hluta umræðunnar en eftir að heyra í seinni talsmönnum stjórnarmeirihlutans verð ég að segja að því miður heyrðum við enn einn ganginn hálfkveðnar vísur um skort RÚV á hlutleysi, mikilvægi þess að gera grundvallarskipulagsbreytingar á stofnuninni o.s.frv. Talsmenn stjórnarmeirihlutans verða að fara að koma hreint fram. Hvað viljið þið gera? Á að brjóta upp almannaþjónustuhlutverk RÚV? Á að ganga á bak þeirrar þverpólitísku samstöðu sem verið hefur hingað til um almannaþjónustuhlutverkið? Þarna verða menn að fara að tala skýrt. (Gripið fram í.) Það er ekki hægt að bera kápuna á báðum öxlum í þessum efnum.

Ég bauð hér upp á samstöðu um meginlínur. Það ófært fyrir stofnunina að vera stöðugt í óvissu um rekstrarumgjörð næsta árs. Getum við gert samkomulag? Ég er til í að binda minn flokk fram yfir þetta kjörtímabil, lofa því að förum við í ríkisstjórn eftir næstu kosningar munum við halda útvarpsgjaldinu óbreyttu. Eigum við að gera samkomulag að þessu leyti til fimm ára til dæmis, allir flokkar á Alþingi? Það gæti verið hluti af því að skapa frið og sátt um umgjörðina. Eftirlaunaskuldbindingin verður að fara. Ef hæstv. fjármálaráðherra neitar því, þá er eðlilegt að láta bara eftirlaunaskuldbindingar fjármálaráðuneytisins koma til frádráttar rekstrarfé fjármálaráðuneytisins, láta þetta gilda yfir allan ríkisrekstur. Allir sjá hvers konar ógöngum við lendum þá í. Það er engin ástæða til þess að hengja þessa sandpoka á Ríkisútvarpið eitt nema ef markmiðið er að drepa það og skemma.

Það er mjög mikilvægt að breytingar á húsakosti geti orðið til þess að auka svigrúm stofnunarinnar til að brjóta ný lönd í dagskrárgerð því það skiptir miklu máli. Það þarf að bæta í í barnaefni. Það þarf að bæta í við þjónustu við hinar dreifðu byggðir. Það þarf að bæta í þjónustu í almennri, lýðræðislegri umræðu. Við sáum það í aðdraganda síðustu kosninga hversu aðþrengd stofnunin var orðin (Forseti hringir.) og hversu lítið svigrúm var fyrir umræðuþætti svo dæmi sé tekið. Við þurfum samstöðu um uppbyggingu og það þarf að hætta þessu niðurrífandi tali stjórnarmeirihlutans í garð stofnunarinnar og því (Forseti hringir.) einelti sem stjórnarmeirihlutinn sýnir henni stöðugt.