144. löggjafarþing — 25. fundur,  3. nóv. 2014.

kjaramál lækna.

[15:07]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er óhætt að segja að það séu blikur á lofti yfir heilbrigðisþjónustunni í landinu. Við erum að upplifa fyrsta læknaverkfall sögunnar, aðgerðum er frestað, óvissa fólks um úrlausn við bráðum veikindum eykst dag frá degi. Þetta kemur síðan í kjölfarið á ákvörðunum sem ríkisstjórnin hefur tekið á þessu ári, sem hafa allar að markmiði að minnka opinber framlög til fjármögnunar heilbrigðisþjónustunnar, láta almenning borga hærri komugjöld svo nemur nærri 20% á heilsugæslustöðvum og í fjárlagafrumvarpi eru boðaðar frekari hækkanir á kostnaðarþátttöku sjúklinga í lyfjum.

Ég hlýt að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra: Hver er stefnumörkun hans í þessu máli? Hann hefur talað með jákvæðum hætti um kröfugerð lækna og sýnt henni skilning. En við heyrðum hins vegar hæstv. fjármálaráðherra, sem fer með launastefnuna, tala á annan hátt á flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins um helgina. Þar taldi hann þjóðarvá fyrir dyrum ef gripið yrði til aðgerða sem gætu tryggt læknum sambærileg kjör hér og í nágrannalöndunum.

Því hlýt ég að spyrja: Hver er í reynd stefna ríkisstjórnarinnar varðandi kjaramál lækna og hjúkrunarfólks? Stefnir ríkisstjórnin að því að tryggja sambærileg kjör við það sem gerist í nálægum löndum? Er hæstv. heilbrigðisráðherra sáttur við þá pólitísku forustu sem fjármálaráðherrann veitir í þessu máli þegar hann segir að ekki sé hægt að mæta kröfum lækna öðruvísi en að nýtt fjármálaáfall dynji yfir íslensku þjóðina?