144. löggjafarþing — 25. fundur,  3. nóv. 2014.

kjaramál lækna.

[15:09]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að hefja máls á þessu mikilsverða efni, sem er fyrsta læknaverkfallið frá því að læknar fengu verkfallsréttinn, 30 ár. Það er alveg rétt að það eru blikur á lofti í heilbrigðisþjónustunni á Íslandi þegar þessi staða er komin upp.

Með sama hætti er það rétt að ég hef afdráttarlaust lýst þeirri skoðun minni að við þurfum að laga kjarasamningsumhverfi læknastéttarinnar að þeim veruleika sem við er að glíma í samkeppni um þetta vinnuafl á meðal okkar næstu nágranna. Rétt er að nefna það hér í þessu sambandi að sú hin sama staða er uppi í nágrannalöndunum. Ég var til dæmis í Danmörku fyrir ekki löngu þar sem ég var upplýstur um að skortur á læknum þar í landi er metinn um 5.500 manns fram til ársins 2025 eða 2030. Þetta er því sá veruleiki sem við erum að glíma við þegar við starfskjör læknastéttarinnar hér á landi er að eiga.

Ég er þeirrar skoðunar, eftir að hafa rýnt í gögn, að læknar hafi dregist aftur úr í launakjörum sambærilegra stétta en engu að síður geri ég þá kröfu líka til hv. fyrirspyrjanda að setja sig í spor þeirra sem með kjarasamningamálin fara. Það standa á þeim öll spjót, ekki bara frá einni stétt lækna. Við þekkjum alveg umræðu samtaka aðila á vinnumarkaði, verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda, og við þekkjum sömuleiðis kröfugerð annarra stétta sem beinist að ríkiskassanum og kjarasamninganefnd ríkisins.

Stefna mín er því sú, og það mæli ég af heilindum, að við þurfum og eigum að leita leiða til að gera kjarasamning við læknastéttina með þeim hætti að við getum betur staðist samjöfnuðinn og samkeppnina um þetta ágæta vinnuafl.