144. löggjafarþing — 25. fundur,  3. nóv. 2014.

húsnæðismál Landspítalans.

[15:16]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Varðandi þjóðarsáttina um spítalann — og eins og hv. þingmaður lagði til, að leita sem mestrar pólitískrar samstöðu um það mál — vil ég leyfa mér að fullyrða að náðst hafi allgóð samstaða hér á vorþinginu síðasta í þessum sal. Alþingi samþykkti að Landspítalinn skyldi endurbyggður við Hringbraut, hann skyldi endurbyggður á grunni þeirra tillagna sem liggja fyrir. Þetta er í mínum huga afdráttarlaus samstaða og afdráttarlaus ákvörðun í málefnum þessa framfaraverks, jafnhliða því að þriðja atriðið var samþykkt, þar sem Alþingi lagði ákveðnar línur um hvaða þætti ætti að skoða varðandi fjármögnun á spítalanum. En ég kemst ekki hjá því að benda hv. þingmanni á það að það lagafrumvarp sem var samþykkt á vorþinginu 2013 gerði grundvallarbreytingar á þeim áformum sem höfðu verið rædd síðastliðin þrjú ár þar á undan.

Hver voru þau? Jú, lögin um byggingu nýja Landspítalans, sem tóku gildi 1. september 2013, hljóða upp á það að þetta skuli vera opinber framkvæmd, mesti þunginn í verkinu. Það leiðir af sjálfu sér að við þurfum þá að finna fé og merkja það á fjárlögum hvers árs sem á að renna til þessa verkefnis. Það er hin stóra breyting sem gerð var á málinu. Að því er unnið og ég tel ástæðulaust, bara svo að ég segi það alveg hreint út, að ríkisstjórnin þurfi einhverja sérstaka aðstoð við að finna þá þriðju leið sem eftir er að skoða varðandi fjármögnun.

Ég tel ríkisstjórninni fullkomlega treystandi til þess og vænti þess (Gripið fram í.) — ég hef enga ástæðu til að ætla að það verði einhver bullandi (Forseti hringir.) ágreiningur um það hvaða fjármagn við finnum til þess að leggja í þetta stóra verk.