144. löggjafarþing — 25. fundur,  3. nóv. 2014.

húsnæðismál Landspítalans.

[15:18]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Málið er mjög brýnt. Ég tel eðlilegt að Landspítalinn sé opinber framkvæmd, þetta almannasjúkrahús sé í almannaeigu, að við áætlum fyrir því á fjárlögum, enda höfum við margoft rætt það í þessum sal að þannig er kostnaður við byggingu slíks spítala langgagnsæjastur og kemur skýrast fram.

Hæstv. ráðherra segir hér að ríkisstjórninni sé treystandi til verksins og það er líklega þess vegna sem óvissan er jafn mikil um það og raun ber vitni. Það er líklega þess vegna sem við fáum stöðugar greinar og spurningar um það hvað þessum málum líði vegna þess að fólk fær ekkert að heyra. Ef ríkisstjórninni er treystandi til verksins bið ég bara hæstv. ráðherra að velta því fyrir sér hvort það mundi ekki vera líklegra til þess að draga úr þessari óvissu að kalla fleiri til samráðsins, að gera þetta á eins þverpólitískan hátt og hægt er. Ég held að þetta sé svo stórt mál að það kalli á samstöðu, helst okkar allra sem erum hér inni.

Ég gat ekki skilið hæstv. ráðherra öðruvísi en að hann teldi svo ekki vera þegar hann segir (Forseti hringir.) að hæstv. ríkisstjórn sé einni treystandi til verksins. Við erum reiðubúin hins vegar til samstarfs.