144. löggjafarþing — 25. fundur,  3. nóv. 2014.

heilbrigðismál.

[15:21]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Hún er svolítið merkileg, þessi umræða um opinbera framkvæmd eða ekki opinbera framkvæmd. Það virðist ekki velkjast fyrir ríkisstjórninni að nota opinbert fé í mjög umdeilanlegar framkvæmdir og að mínu viti miklu ónauðsynlegri en byggingu nýs Landspítala. Það á að fara að verja 80 milljörðum af opinberu fé í að greiða niður einkaskuldir, algjörlega að óþörfu að mínu viti.

Ég ætla að tala um heilbrigðismál eins og kollegar mínir hafa gert en beina fyrirspurn minni til hæstv. forsætisráðherra. Mér finnst þetta vera mál sem þarf að tala mjög skýrt í. Við erum að horfa fram á og inn í mjög alvarlegt ástand í heilbrigðismálum. Það er læknaverkfall og það er ekki bara út af launum, þó að það sé að stórum hluta út af ósamkeppnishæfum launum, heldur líka út af aðbúnaðinum. Það þarf 4 milljarða ef menn ætla að fara í nauðsynlegt bráðaviðhald á húsnæði Landspítalans sem er bara að gera við leka og ónýta glugga og svoleiðis sem blasir við. Það er uppsafnaður vandi upp á svona 4 milljarða.

Það blasir við öllum að það þarf nýjan húsakost og ég fagna því að það virðist þó eitthvað vera að gerast í þessu. Það voru yfirlýsingar um helgina, yfirlýsingar frá hæstv. heilbrigðisráðherra núna um að farið verði í byggingu nýs spítala á kjörtímabilinu.

Nú þarf að finna fjármögnun og mig langar að spyrja, til að fá enn einn hnykkinn í yfirlýsingarnar svo við getum verið algjörlega kýrskýr með að farið verði í byggingu nýs Landspítala, um afstöðu hæstv. forsætisráðherra til þessa stóra máls.

Verður farið í byggingu nýs spítala á þessu kjörtímabili, helst sem fyrst? Getur hæstv. forsætisráðherra nefnt tímasettar áætlanir? Hvernig verður hagað vinnunni við að finna fjármagn?