144. löggjafarþing — 25. fundur,  3. nóv. 2014.

heilbrigðismál.

[15:25]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Svo allrar sanngirni sé gætt held ég að 140 milljarða kr. halli, sem myndaðist á ríkissjóði eftir efnahagshrun, hafi sett svolítið strik í reikning ríkissjóðs. Blessunarlega erum við núna komin á betri stað í ríkisfjármálunum.

Skil ég þá svör hæstv. forsætisráðherra rétt, að það sé að hans mati skynsamlegt að nota svigrúm sem hann telur að muni skapast í ríkisrekstrinum á komandi árum til að byggja nýjan Landspítala? Er það fjármögnunarleiðin sem hann stingur upp á?

Ég tek skýrt fram að ég fagna því mjög að hér er að myndast algjörlega þverpólitísk samstaða um að það þurfi að fara í byggingu þessa spítala.

Nú þarf bara að byrja að byggja hann. Nú þarf að finna peninginn. Er hæstv. forsætisráðherra að stinga upp á því að peningar komi úr ríkissjóði til þessa verkefnis? Sér hann möguleika á að leysa þetta með lántöku eða sér hann einhverjar aðrar leiðir, (Forseti hringir.) kannski blandaðar?

Getur hann sýnt aðeins frekar á spilin hvað þetta varðar?