144. löggjafarþing — 25. fundur,  3. nóv. 2014.

afnám verðtryggingar.

[15:35]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er beinlínis kostulegt að sjá Sigmund Davíð Gunnlaugsson lýsa kostum verðtryggðra lána í ræðustól Alþingis. [Kliður í þingsal.] Það eru aðrar ræður sem hæstv. forsætisráðherra hélt fyrir kosningar þegar hann lofaði almenningi á Íslandi afnámi verðtryggingar. Látum vera að hann hafi ekki getað afnumið verðtrygginguna aftur í tímann, það vitum við öll að er erfitt. En að viðskiptabankarnir skuli nú leggja áherslu á verðtryggð útlán — þeir ráða auðvitað miklu um það hvers konar lánum fólk á völ á. Og að Íbúðalánasjóður hætti við að bjóða upp á óverðtryggð lán, sem Jóhanna Sigurðardóttir lögfesti lagaheimild til til sjóðsins, eru auðvitað ótrúleg svik á kosningaloforði.

Af því að ég hef örstuttan tíma hér spyr ég hæstv. forsætisráðherra um afnám hafta og verðbólgu. Getur fólk treyst því að einhvers konar þak verði á verðtryggðum lánum ef ráðist verði í afnám hafta, svo sem eins og þau 4% sem Framsóknarflokkurinn talaði fyrir (Gripið fram í.) á síðasta kjörtímabili? Eða er það eins um það tal Framsóknarflokksins á síðasta kjörtímabili (Forseti hringir.) að ekkert er að marka það þegar hann er kominn í Stjórnarráðið?