144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

yfirstjórn vísinda og háskóla.

254. mál
[15:45]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þetta tækifæri til að ræða við hæstv. forsætisráðherra um yfirstjórn vísinda og háskólamála. Sem kunnugt er er það hæstv. forsætisráðherra sem fer með yfirstjórn vísindamála í landinu sem formaður Vísinda- og tækniráðs.

Nýlega hefur Vísinda- og tækniráð kynnt nýja stefnu til nýs tíma og kynnt úttekt á íslenska vísinda- og nýsköpunarkerfinu. Segja má að þar séu uppi sömu atriði sem hafa verið uppi nokkuð lengi, árum saman og jafnvel lengur, þ.e. kallað er eftir einföldun á kerfinu, kallað eftir því að stofnanir vinni ýmist betur saman eða í meira samræmi, að fjárveitingar séu veittar til færri liða með gagnsærri hætti og fleira slíkt. Það kemur fram í úttektarskýrslu sem erlendir sérfræðingar gerðu að mjög mikilvægt sé í raun og veru að ná fram slíkum breytingum og virkja fólk á öllum sviðum með í þeim.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra, sem leiðir þessa vinnu, hvernig hann sér fyrir sér að hægt sé að framfylgja stefnu um einföldun stofnanakerfis þannig að rannsókna- og vísindakerfið verði heildstæðara og hvort stefnt sé að lagabreytingum í því skyni. Það hafa verið kynntar hugmyndir um eina rammalöggjöf um allar rannsóknastofnanir. Einnig hafa verið kynntar hugmyndir um fækkun sjóða, ekki síst atvinnuvegamegin. Þar hafa verið ráðagerðir uppi um að fækka sjóðum og hafa ekki sérsjóði til að mynda á sviði sjávarútvegs og landbúnaðar heldur sameina þá. Þetta hefur að einhverju leyti verið gert rannsóknamegin. Rannsóknasjóður og Rannsóknarnámssjóður voru til dæmis sameinaðir á síðasta kjörtímabili. En ég get sagt það að þó að ég hafi verið þá í ríkisstjórn hafa þessar breytingar að mörgu leyti tekið allt of langan tíma, ef við viljum ná þeim fram.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvernig hann sér fyrir sér að þessari stefnu verði framfylgt. Síðan langaði mig til að nefna þá hugmynd sem fleygt hefur verið hér, ekki af mér heldur af hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni, formanni Bjartrar framtíðar, um að það sé mikilvægt að virkja alla stjórnmálaflokka með til stefnumótunar á sviði vísinda- og tæknimála. Ég hjó eftir því í skýrslu hinna erlendu sérfræðinga að þar var sérstaklega rætt um að það þyrfti aukið pólitískt afl í þessa stefnumótun og aukna umræðu í þinginu um hvert ætti að stefna. Þar er í raun og veru fyrst og fremst verið að leggja til að setja aukinn þunga í hina pólitísku umræðu um vísinda- og tæknimál.

Því hefur stundum verið fleygt að rétt væri að efna til slíks aukins samráðs, jafnvel að breyta skipan Vísinda- og tækniráðs. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra opinnar spurningar um það hvernig hann sér fyrir sér að megi efla samráð á pólitísku sviði um þessi mál.