144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

yfirstjórn vísinda og háskóla.

254. mál
[15:58]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Í ljósi þess að verið er að gera þessa heildarúttekt teldi ég óæskilegt að setja hana ekki í samhengi við það sem menn eru að skoða varðandi rannsókna- og vísindastarf og hugsanlega rammalöggjöf þar um. Það á ekki að þurfa að tefja vinnu eða mat á því hvort ástæða sé til að fara í lagabreytingar verulega. Þvert á móti eru allar líkur á því að slíkar hugsanlegar lagabreytingar væru betur til þess fallnar að ná markmiðum sínum ef þær eru í samhengi við aðra vinnu sem verið er að vinna af hálfu ríkisins varðandi stofnanakerfi þess. Þessari vinnu lýkur vonandi á næstu missirum en nákvæm dagsetning liggur ekki fyrir. En ég ítreka að þetta á ekki að þurfa að valda miklum töfum varðandi hugsanlegar lagabreytingar, enda hefði alltaf þurft að undirbúa slíkar breytingar með hliðsjón af því hvernig kerfið virkar í heild.

Hvað varðar hugmynd hv. þingmanns um að það hefði verið æskilegt, og væri jafnvel enn, að gera grein fyrir aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar hér í þinginu til að efna til umræðu um hana hér, og þar með lyfta þessum málaflokki og umræðu um hann, þá finnst mér það bara prýðishugmynd. Ég hefði gaman af því að taka þátt í slíkri umræðu.