144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

mótvægisaðgerðir vegna hugsanlegs gengisfalls íslensku krónunnar.

262. mál
[16:08]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Mér heyrist að það verði engar mótvægisaðgerðir, ekki hafi verið hugsaðar neinar eiginlegar mótvægisaðgerðir heldur eigi að reyna að byggja þetta inn í heildaraðgerðina. Við afnám hafta verði sem minnst lækkun á genginu í þeirri heildstæðu aðgerð, ef ég skil það rétt.

Hæstv. ráðherra nefndi líka að skuldastaða ríkissjóðs væri ekki svo slæm, þetta væri í raun ekki skuldavandi heldur greiðslujöfnunarvandi og þá náttúrlega í erlendum gjaldmiðli.

Nú vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvernig þetta lítur allt saman út með tilliti til þess að á næsta ári mun falla dómur í Hæstarétti í máli sem Hagsmunasamtök heimilanna reka gegn Íbúðalánasjóði. Þar er útfærsla verðtryggðra neytendalána mögulega ólögleg og ef farið er að kröfu sækjanda geta 100, 200 milljarðar, ég veit ekki nákvæmlega hversu mikið, mögulega skollið á Íbúðalánasjóði. Þá erum við bara að tala um Íbúðalánasjóð. Sjóðurinn hefur 13 milljarða í eigið fé (Forseti hringir.) þannig að varnargarðurinn er 13 milljarðar ef þetta skellur á honum. Hvaða afleiðingar hefur þetta á (Forseti hringir.) hugsanlegt gengisfall krónunnar, út frá stöðu þjóðarbúsins (Forseti hringir.) og svo framvegis?